Viðskipti innlent

Greining MP Banka spáir 2,2% verðbólgu

Greining MP Banka reiknar með því að vísitala neysluverðs (VNV) lækki um 0,6% í janúar og tólf mánaða verðbólga lækki þar með í 2,2%. Þeir þættir sem hafa mest áhrif til lækkunar á VNV eru útsölur, breytt mæling útvarpsgjalds og lækkun bílverðs. Á móti því vegur hækkun bensínverðs og ýmsar gjaldskrárhækkanir.

Fjallað er um málið í Markaðsvísi greiningarinnar. Þar segir að breytingar á vörugjöldum á bílum sem tóku gildi um áramótin hafa leitt til verðlækkunar á bílum sem menga tilltölulega lítið. Stærri bílar með stórar vélar sem menga tiltölulega meira hækka í verði. Mörg bílaumboð hafa nú lækkað verð á smærri bílum en bjóða þá stærri nú með minni vélum en áður og eru þeir því oft ekki alveg sambærilegir við þá bíla sem voru í boði fyrir breytingu vörugjalds.

„Við eigum von á því að nokkur verðlækkun mælist á bílum vegna vörugjaldsbreytingarinnar," segir í Markaðsvísinum.

„Þá mun VNV lækka um 0,4% vegna þess að útvarpsgjald er ekki lengur flokkað sem neysluútgjöld. Tengsl gjaldsins við notkun hafa rofnað að mati Hagstofunnar og það þar með flokkað sem skattur. Ekki er hægt að efast um réttmæti þessarar flokkunar en það er óneitanlega sérkennilegt að það er enn talið með í grunni vísitölunnar og verðið fært niður í núll. Þannig fæst 0,4% lækkun þrátt fyrir að viðkomandi gjald hafi hækkað en ekki lækkað."

Síðan segir að rösktuðningur Hagstofunnar er að svipað hafi verið gert í Hollandi þegar sambærilegt gjlad var fellt niður og kostnaður við útvarpsrekstur fjármagnaður með sköttum. Þar var þó gjaldið fellt niður þegar það var fært niður í 0 í mælingunni en ekki hækkað líkt og hér er gert.

„Á móti öllum þessum lækkunum koma ýmsar gjaldskrárhækkanir um áramótin. Auk þess er gengisstyrkingar hætt að gæta í bili. Stærsti hækkunarliðurinn er vegna hækkunar bensínverðs en það er nú ríflega þremur prósentum hærra en þegar vísitalan var mæld í desember. Á heildina eigum við von á því að VNV lækki um 0,6% þegar Hagstofan birtir niðurstöðu næstu mælingar 26. Janúar," segir í Markaðsvísinum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×