Viðskipti innlent

Ábyrgðarmenn gætu sloppið

Árni Helgason, héraðsdómslögmaður.
Árni Helgason, héraðsdómslögmaður.
Fjöldi lánasamninga gæti verið í uppnámi vegna tíu ára gamals samkomulags um ábyrgð á skuldum einstaklinga. Í mörgum tilvikum gætu ábyrgðarmenn sloppið undan ábyrgðinni þar sem bankarnir hafa ekki gert greiðslumat hjá lántakendum.

Til er samkomulag frá 2001 milli stjórnvalda og helstu fjármálafyrirtækja landsins um verklagsreglur í tengslum við ábyrgðarmenn einstaklinga. Það telst ekki til laga en er bindandi. Þar segir að fjármálafyrirtæki verði að meta greiðslugetu greiðanda fari lánsupphæð yfir eina milljón króna. Greiðslumatið á að vera undirritað af ábyrgðarmanni lánsins. Hafi það ekki verið gert er hægt að fella ábyrgðina úr gildi. Lánið stendur þó óbreytt.

„Það auðvitað er ansi algengt að bankarnir eða lánastofnanir hafa ekki sinnt sínu hlutverki samkvæmt samkomulaginu frá 2001 um að kynna mönnum greiðslumat eða jafnvel ekki látið vinna greiðslumat yfir höfuð," segir Árni Helgason, héraðsdómslögmaður, og bætir við að í þeim tilvikum sé ekki hægt að byggja á ábyrgðinni.

„Fólk þarf að benda á þetta sjálft. Það þarf að fara og átta sig á því að þetta var ekki gert. Þetta er til dæmis ekki eitthvað sem dómari skoðar sjálfkrafa. Bankarnir hafa ekki verið að taka upp sjálfir að skoða sín lánasöfn með tilliti til þessara ábyrgða."

Ekki er vitað hversu mörg lán heyra undir samkomulagið en líklega gætu þau hlaupið á þúsundum. „Mín tilfinning er sú að þetta sé umtalsvert mikið. Þetta séu ansi mörg lán og margar sjálfskuldarábyrgðir sem gætu verið í uppnámi ef menn myndu láta á þetta reyna."






Fleiri fréttir

Sjá meira


×