Viðskipti innlent

Seldu minkaskinn fyrir 160 milljónir í Kaupmannahöfn

Íslenskir loðdýraræktendur gerðu góða ferð til Kaupmannahafnar í dag. Á uppboði hjá Kopenhagen Fur seldust um 20.000 minkaskinn fyrir tæpar 160 milljónir kr. Meðalverð á skinn hefur aldrei verið hærra.

Björn Halldórsson formaður Sambands íslenskra loðdýraræktenda segir að meðalverðið hafi verið 375 danskar kr. á skinn eða um 7.900 krónur. „Ég ræddi við nokkra sem eru gamlir í hettunni á þessum uppboðum og þeir sögðu allir að það hefði verið einstakt hvað verð á skinnunum varðar," segir Björn þar sem við náðum tali af honum á Hvids Vinstue eftir uppboðið.

Í máli Björns kemur fram að það hafi einkum verið Kínverjar sem buðu hátt verð í skinnin. Helgast það af því að á næstunni munu um 700 nýjar verslanir með pelsa og skinnvörur opna í Kína og að eigendur þeirra hafi verið að afla sér birgða fyrir þær. „Svo komu Rússar einnig sterkt inn á þessu uppboði," segir Björn.

Útlitið er mjög gott fyrir íslenska loðdýrabændur í ár því ekki er útlit fyrir að verð á minkaskinnum muni lækka frá í fyrra en meðalverðið þá fyrir íslensku skinnin nam ríflega 320 dönskum kr.

Næsta uppboð hjá Kopenhagen Fur er í apríl og reiknar Björn með að 30 til 40.000 íslensk skinn verði seld á því og síðan álíka magn á uppboðinu í júní.

Í fyrra seldu íslenskir minkabændur skinn fyrir yfir 1,1 milljarð kr. á þessum uppboðum í Kaupmannahöfn.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×