Viðskipti innlent

Formaður SA: Munum ekki semja við bræðslumenn

Vilmundur Jósefsson formaður Samtaka atvinnulífsins var harðorður í garð starfsmanna fiskimjölsverksmiðja í ræðu sinni á fundi um atvinnumál á Hótel Grand. Formaðurinn segir að SA muni ekki semja við starfsmennina og að þeir fái ekki aðrar launahækkanir en samið verður um við aðra hópa.

Eftir að hafa farið yfir stöðuna á vinnumarkaðinum segir Vilmundur: „Við þessar aðstæður koma svo fram hópar sem telja sig búa við sterkari stöðu en aðrir á vinnumarkaðnum og geti sótt sér launahækkanir sem eru langt umfram það sem skynsamlegt er til að halda hér verðbólgu í skefjum og byggja upp öflugt atvinnulíf þar sem störfum fjölgar og lífskjör batna.

Starfsmenn í fiskimjölsverksmiðjum ríða nú á vaðið og hafa boðað verkfall yfir hápunkt loðnuvertíðarinnar til að sækja sér tuga prósenta launahækkanir sem flæða munu yfir allan vinnumarkaðinn verði orðið við kröfum þeirra.

Við munum ekki ganga að kröfum starfsmanna í fiskimjölsverksmiðjunum. Þeir munu ekki fá aðrar launahækkanir en aðrir hópar semja um."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×