Scottie Pippen talaði um það í úrvarpsviðtali á ESPN á föstudaginn að LeBron James gæti hugsanlega verið besti körfuboltamaður sögunnar og þar með betri en Michael Jordan.
Það eru margir sem eru ekki sammála þessari yfirlýsingu fyrrum liðsfélaga Jordan hjá Chicago Bulls og einn af þeim er LeBron James sjálfur.
„Ég er ekki betri en Jordan. Michael var ótrúlegur leikmaður og ég á langa leið eftir þar til að ég kemst í hóp með þeim bestu sem hafa spilað," sagði LeBron James.
„Það er líka fullt af öðrum frábærum leikmönnum sem hafa spilað í þessarri deild. Larry Bird og Kareem Abdul-Jabbar og allir þeir sem hafa unnið alla þessa hringi eins og Bill Russell," sagði James.
„Ég er þakklátur og auðmjúkur að heyra þessi orð Pippen ekki síst þar sem að hann var liðsfélagi Jordan og fékk að fylgjast með honum á hverjum degi. Ég ætla ekki að sitja hér og segja að ég sé betri en Jordan. Ég er ekki betri en Jordan," sagði James sem er fjórum sigrum frá fyrsta meistaratitli sínum.
Jordan og Pippen unnu sex meistaratitla saman með Chicago Bulls á árunum 1991 til 1998. Michael Jordan var 28 ára þegar hann vann fyrsta titilinn sinn 1991 en LeBron James verður 27 ára í lok desember næstkomandi.
LeBron James: Ég er ekki betri en Jordan
Óskar Ófeigur Jónsson skrifar

Mest lesið

Elín Jóna ólétt og verður ekki með á HM
Handbolti





Segir hitann á HM hættulegan
Fótbolti

Belgar kveðja EM með sigri
Fótbolti


