Viðskipti innlent

Usmanov handrukkari - voru bankamenn að bjarga lífi sínu?

Valur Grettisson skrifar
Alisher Usmanov ásamt Pútín, forsætisráðherra Rússlands.
Alisher Usmanov ásamt Pútín, forsætisráðherra Rússlands.

„Ég trúi því ekki að íslenskir bankamenn séu svona miklir aular að þeir láni manni eins og Usmanov 280 milljarða króna. Ég neita að trúa þeirri sögu," sagði Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur, í Morgunútvarpinu á rás 2 í morgun. Þar fullyrðir hann að Úsbekinn Alisher Usmanov sé lítið annað en handrukkari eldsneytisfyrirtækisins Gazprom.

Samkvæmt frétt RÚV þá samþykkti Kaupþing 270 milljarða króna lán til Usmanovs á lánafundi í London í september 2008.

Samkvæmt upplýsingum sem finna má á Wikipediu þá sér Usmanov um viðkvæmar og erfiðar fjárfestingar fyrir fyrirtækið.

„Á mannamáli heitir þetta að vera handrukkari Gazprom," sagði Guðmundur en finna má fjölda heimasíðna á netinu þar sem hið sama er fullyrt um þennan umdeilda auðkýfing sem er í hundraðasta sæti yfir ríkustu menn veraldar. Gazprom er stærsta eldsneytisfyrirtæki veraldar en að sögn Guðmundar er fyrirtækið gjörspillt og fé þess leitar ítrekað í dularfulla vasa auðkýfinga og stjórnmálamanna í Rússlandi. Hann bætir við að allur kostnaður fyrirtækisins sé alltaf þrefaldur á við önnur fyrirtæki.

„Úsmanov er úr úsbekísku mafíunni og hefur meðal annars í kringum sig dauðasveitir," sagði Guðmundur en finna má upplýsingar á netinu þar sem fram kemur að Usmanov sé góður vinur Gafur Rakimov, sem er alræmdur mafíuforingi í Úsbekistan. Hann hefur helst hagnast á alþjóðlegri heróinsölu. Sumstaðar er hann sagður lærifaðir Usmanovs.

Í umfjöllun Wikipedia um Usmanov kemur fram að hann sat um sex ára skeið á níunda áratug síðustu aldar í fangelsi í Úsbekistan eftir að hafa verið dæmdur fyrir mútur og fjárkúgun. Dómur hans hljóðaði upp á átta ára harða refsivist í þrælkunarbúðum. Hann afplánaði sex ár.

Guðmundur segir margt sérkennilegt við Usmanov. Til að mynda er hann ekki á skrá yfir ríkustu Rússana. Þá er óljóst hvernig hann hagnaðist. Guðmundur segir hann olígarka og að hann hafi fyrir stuttu síðan komist í álnir, að því virðist í gegnum milljarðamæringinn Boris Berezovsky, sem datt út af sakramentinu hjá ráðamönnum í Kreml um síðustu aldamót. Hann flúði land 2001.Guðmundur Ólafsson, hagfræðingur. Hann segir Usmanov lítið annað en handrukkara og smákrimma.

„Hvernig stendur svo á því að Kaupþing lánar síðan svona manni 280 milljarða. Og það í finnsku tryggingafélagi?" spurði Guðmundur og benti á að fæstir bankar í Evrópu vilja eiga í viðskiptum við manninn. Tryggingafélagið sem um ræðir er Sampo sem Bakkavarabræður áttu í.

„Um hvað snýst málið raunverulega. Það er verið að segja okkur tóma lygi um þetta mál," sagði Guðmundur og bætti við: „Er maðurinn kannski að rukka inn skuld? Ég hef upplýsingar um það að Rússar hafi lagt fé inn í Kaupþing og stórtapað."

Guðmundur sagði það sérkennilegt að þessi maður dúkki svo upp í Kaupþingi korteri fyrir hrun: „Og hann segir borgið. Og honum var borgað."

Guðmundur sagði þessa lánveitingu algjörlega glórulausa nema málið væri sett í þetta samhengi.

„Ég trúi því ekki að íslenskir bankamenn hafi verið svo miklir aular að þeir hafi lánað þessum manni 280 milljarða rétt fyrir hrun. En ef þeir voru að bjarga lífi sínu eða fjölskyldu, þá fer þetta að verða skiljanlegt," sagði Guðmundur í Morgunútvarpinu og bætti við: „Íslenskir bankamenn voru liklega lentir í klónum á alþjóðlegum glæpamönnum."

Guðmundur spurði svo hversvegna menn eins og Usmanov, og menn af hans toga, hafi nýtt sér ástandið hér á landi eins og það var.

„Hvers vegna skildu svona menn ekki hafa nýtt sér þá stöðu sem uppi var hér á landi? Engan barnaskap. Heimurinn er ljótur," sagði Guðmundur að lokum.

Þess má geta að Vísir greindi frá því í apríl á síðasta ári að Kaupþing hafi gert tæplega þrjátíu milljarða króna lánasamning í ágúst 2008 við Gallagher Holdings Limited, sem var í eigu Usmanov. Undirliggjandi hlutabréf í þeim viðskiptum var Mmc Norilsk Adr, alþjóðlegt námufyrirtæki upprunnið í Rússlandi.

Usmanov skuldaði íslenskum bönkum samtals 237 miljónir evra eða ríflega 40 milljarða króna samkvæmt skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Langstærstur hluti upphæðarinnar var við Kaupþing.

Við það tækifæri var Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, spurður hvers vegna bankinn hefði lánað Úsbekanum svo háa fjárhæð svo skömmu fyrir hrun. Hreiðar Már svaraði í gegnum almannatengslafulltrúa sinn og sagði að lán Usmanovs hefði verið greitt upp að fullu, enda væri hann einn ríkasti maður í heimi, eins og það var orðað.Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.