Innlent

Ofbeldið ekki refsivert í þriðjungi ríkja

Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, segir enga konu eða stúlku algjörlega óhulta fyrir ofbeldi. Það sé ljótur blettur á hverri heimsálfu og hverju landi.
Aðalritari Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, segir enga konu eða stúlku algjörlega óhulta fyrir ofbeldi. Það sé ljótur blettur á hverri heimsálfu og hverju landi. NORDICPHOTOS/Getty
603 milljónir kvenna búa í löndum þar sem heimilisofbeldi er ekki skilgreint sem glæpur samkvæmt lögum. Þetta kemur fram í skýrslu UN Women, stofnunar Sameinuðu þjóðanna sem vinnur í þágu kvenna og jafnréttis. Skýrslan nefnist Staða kvenna í heiminum: Leitin að réttlæti. Fjallað verður um skýrsluna á morgunverðarfundi íslensku landsnefndar UN Women í dag.

Miklar breytingar hafa orðið á löggjöf í þessum málum á undanförnum árum. Í apríl á þessu ári var svo komið að 125 ríki höfðu samþykkt lög sem banna heimilisofbeldi, en aðeins 52 ríki hafa gert nauðgun innan hjónabands refsiverða. Í að minnsta kosti 127 ríkjum er nauðgun innan hjónabands því ekki talin glæpur. Í þeim ríkjum sem hafa gert heimilisofbeldi að glæp er tíðni þess lægri og færra fólki þykir ofbeldi gegn konum réttlætanlegt.

Engin kona eða stúlka er algjörlega laus við þá hættu að verða fyrir kynbundnu ofbeldi. „Ofbeldi gegn konum og stúlkum er ljótur blettur á hverri heimsálfu, landi og menningu,“ er haft eftir aðalritaða Sameinuðu þjóðanna, Ban Ki-moon, í skýrslunni.

Skýrslan fjallar um margvíslegt misrétti og ofbeldi gagnvart konum sem viðgengst um allan heim.

Í skýrslunni kemur fram að á síðustu öld hafi orðið gríðarlegar breytingar á réttindum kvenna en þrátt fyrir það upplifi milljónir kvenna lögin aðeins sem orð á blaði sem ekki leiði til jafnréttis og réttlætis. Lög sem mismuna og göt í löggjöf eru enn vandamál í öllum heimsálfum. Skýrslan sýni að þar sem lög og réttarkerfi virka vel geta þau verið mikilvæg tól fyrir konur. Konur sjálfar gegna lykilhlutverki í breytingunum eftir því sem fleiri konur eru löggjafar, dómarar, lögmenn og baráttumenn.

Meðal úrbóta sem lagðar eru til í skýrslunni er að nota kynjakvóta til að fjölga konum á þingi, ráða fleiri konur í lögreglusveitir, auka aðgengi kvenna að dómstólum og sannleiksnefndum og setja kynjajafnrétti í forgang við þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna.

thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×