Handbolti

Kiel enn ósigrað eftir magnaðan lokasprett gegn Magdeburg

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Andreas Palicka átti frábæra innkomu í lið Kiel í kvöld.
Andreas Palicka átti frábæra innkomu í lið Kiel í kvöld. Nordic Photos / Bongarts
Kiel vann í kvöld sjö marka sigur á Magdeburg eftir hreinn ótrúlegan lokasprett í leik liðanna í þýsku úrvalsdeildinni í kvöld, 33-26.

Staðan í hálfleik var 13-12, heimamönnum í Magdeburg í vil og héldu þeir undirtökunum í leiknum framan af í seinni hálfleik.

Staðan var orðin 22-20 og aðeins tólf mínútur til leiksloka. Þá var Thierry Omeyer tekinn af velli í marki Kiel en hann hafði varla varið skot allan seinni hálfleikinn. Inn á kom Svíinn Andreas Palicka sem átti stórleik og varði átta af þeim tólf skotum sem hann fékk á sig.

Kiel, með Christian Zeitz fremstan í flokki, gekk á lagið, skoraði sex mörk í röð og rúllaði einfaldlega yfir Magdeburg á lokamínútum leiksins. Zeitz skoraði alls níu mörk í leiknum og Filip Jicha sjö. Hjá Magdeburg var Fabian van Olphen markahæstur með sex mörk.

Alfreð Gíslason er þjálfari Kiel og hefur náð glæsilegum árangri með liðið á tímabilinu. Liðið er enn með fullt hús eftir fjórtán leiki og trónir vitaskuld á toppi þýsku úrvalsdeildarinnar.

Aron Pálmarsson átti flottan leik fyrir Kiel í kvöld. Hann skoraði tvö mörk, lagði upp mörg til viðbótar og nýtti þær mínútur sem hann fékk mjög vel.

Björgvin Páll Gústavsson lék síðustu átta mínútur leiksins í Magdeburg en náði ekki að verja skot á þeim tíma. Magdeburg er í sjöunda sæti deildarinnar með fjórtán stig.

Kiel er nú með sjö stiga forystu á Füchse Berlin sem kom sér í annað sæti deildarinnar með sigri á Rhein-Neckar Löwen í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×