Innlent

Aðeins framsóknarmenn treysta krónunni

Meirihluti stuðningsmanna allra flokka annarra en Framsóknarflokksins telja að krónan geti ekki verið framtíðargjaldmiðill Íslands, samkvæmt niðurstöðum skoðanakönnunar Fréttablaðsins og Stöðvar 2.

Alls sögðu 59,5 prósent þeirra sem afstöðu tóku í könnuninni að krónan geti ekki verið framtíðargjaldmiðill Íslands, en 40,5 prósent töldu krónuna brúklega áfram. Þetta er svipað hlutfall og í sambærilegri könnun í apríl 2009.

Um 66 prósent þeirra sem sögðust styðja Framsóknarflokkinn hafa trú á krónunni sem framtíðargjaldmiðli. Það er viðsnúningur því 38 prósent stuðningsmanna flokksins voru þeirrar skoðunar í apríl 2009.

Stuðningsmenn Sjálfstæðisflokks hafa sveiflast í hina áttina. Um 48 prósent telja krónuna geta verið framtíðargjaldmiðil. Um 58 prósent voru þeirrar skoðunar fyrir tveimur árum.

Aðeins 21,5 prósent stuðningsmanna Samfylkingarinnar hafa trú á krónunni sem framtíðargjaldmiðli samkvæmt niðurstöðum könnunarinnar. Um 48 prósent stuðningsmanna VG eru sömu skoðunar.

Ekki reyndist marktækt að reikna afstöðu stuðningsmanna Hreyfingarinnar.

Hringt var í 800 manns miðvikudaginn 23. febrúar og fimmtudaginn 24. febrúar. Þátttakendur voru valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá. Svarendur skiptust jafnt eftir kyni og hlutfallslega eftir búsetu og aldri.- bj




Fleiri fréttir

Sjá meira


×