Viðskipti innlent

Landsvirkjun réð 60 manns án auglýsinga á 10 árum

Frá árinu 2000 til síðustu áramóta hefur Landsvirkjun ráðið 60 starfsmenn til starfa án þess að stöður þeirra hafi verið auglýstar. Alls hefur verið ráðið í 170 störf hjá Landsvirkjun á þessu tímabili. Af þeim voru 98 auglýst bæði utan og innan húss en 12 stöður voru eingöngu auglýstar innanhúss.

Þetta kemur fram í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn Margrétar Tryggvadóttur þingmanns hreyfingarinnar á Alþingi um starfsmannahald Landsvirkjunar.

Margrét spurði m.a. hversu mörg störf hafa verið auglýst hjá Landsvirkjun frá árinu 2000 og hverjir voru ráðnir í þau störf?

„Á framangreindu tímabili var ráðið í 170 störf, þar af voru 98 störf auglýst bæði utan húss og innan og 12 innan húss. Þá er á meðfylgjandi yfirliti ekki getið um ráðningar í tímabundin störf og sumarstörf námsfólks enda eru sumarstörfin einnig tímabundin. Sumarstörfin eru þó almennt auglýst á vef fyrirtækisins," segir í svarinu.

Þá vildi Margrét vita hvort einhverjir hefðu verið ráðnir án auglýsingar á framangreindu tímabili og þá hverjir?

„Á tímabilinu hafa 60 einstaklingar verið ráðnir án auglýsingar, svo sem fram kemur í meðfylgjandi yfirliti. Sú aðferð brýtur ekki í bága við starfsreglur stjórnarinnar, sbr. áður tilvitnaða grein 11.9. Rétt er að taka fram að frá miðju ári 2008 var verklagi við ráðningar breytt á þann hátt að allar lausar stöður eru auglýstar a.m.k. innan húss," segir í svarinu.

Í tilvitnaða grein 11.9, segir um ráðningar í störf hjá fyrirtækinu: „Forstjóri ræður starfsmenn til fyrirtækisins, segir þeim upp og semur við þá um launakjör. Forstjóri skal þó hafa samráð við stjórnarformann um ráðningu og uppsögn framkvæmdastjóra einstakra sviða Landsvirkjunar."








Fleiri fréttir

Sjá meira


×