Handbolti

Ólafur: Var miklu betri í morgun

Henry Birgir Gunnarsson í Linköping skrifar

Það lá vel á landsliðsfyrirliðanum Ólafi Stefánssyni þegar Vísir hitti á hann á hóteli íslenska landsliðsins í Linköping í dag.

Ólafur gat ekki spilað gegn Brasilíu í gær vegna meiðsla en hann fór með strákunum á æfingu í dag og gæti komið við sögu í leiknum gegn Japan á morgun.

"Það er fín staða á mér í dag og ég er betri. Ég fann mikinn mun á mér er ég vaknaði og mæti vel stemmdur á æfinguna. Ég vona að þetta sé eitthvað sem var ekki neitt eða verði ekki neitt," sagði Ólafur sem neitar því ekki að það hafi verið létt áfall að vakna daginn eftir Ungverjaleikinn og sjá að hnéð var ekki alveg eins og það á að vera.

"Það fóru alls kyns hugsanir í gang. Ætli það sé ekki eðli fullorðins manns að hugsa allt það versta. Ég var kominn í aðgerð, hættur í handbolta og allur pakkinn. Ég fer alltaf yfir alla mögulega hluti. Gærdagurinn var því ekkert rosalega skemmtilegur," sagði Ólafur sem sat með íslensku áhorfendunum á leiknum gegn Brasilíu í gær og skemmti sér ágætlega.

Hægt er að sjá viðtalið við Ólaf í heild sinni með því að smella á "horfa á myndskeið með frétt".




Fleiri fréttir

Sjá meira


×