Viðskipti innlent

Kanna hvort yfirtökuskylda hafi myndast í Icelandair

Verið er að kanna hvort lífeyrissjóðirnir séu nú komnir með skyldu til að kaupa allt hlutafé í Icelandair og eignast þannig flugfélagið að fullu

Í vikunni var því flaggað í kauphöllinni í tengslum við hlutafjárútboð Icelandair að Framtakssjóður Íslands ætti nú 29% í Icelandair. Því var einnig flaggað að Lífeyrissjóður verslunarmanna ætti orðið tæplega 10% í félaginu og eiga þeir því samanlagt tæp 40% af hlutaféinu. Yfirtökuskylda myndast við 33% eignarhlut.

Hér er um að ræða tengda aðila í þeim skilningi að Lífeyrissjóður verslunarmanna er stærsti einstaki eigandi Framtakssjóðsins með tæplega 20% hlut. Sökum þessa sendi fréttastofan fyrirspurn um málið til Fjármálaeftirlitsins.

Í svari eftirlitsins segir meðal annars að ávallt sé til skoðunar hvort aðilar teljist yfirtökuskyldir samkvæmt lögum um verðbréfaviðskipti þ.e. einstakir aðilar sem og hvort aðilar teljist í samstarfi og því yfirtökuskyldir. Fjármálaeftirlitið er bundið af skilgreiningu laga um það hvort aðilar teljist í samstarfi.

Hinsvegar geti Fjármálaeftirlitið ekki tjáð sig um það einstaka tilvik sem nefnt er í fyrirspurninni annað en eftirlitið er með slík mál til skoðunar nú sem endranær.

Tekið skal fram að á síðasta ári veitti Fjármálaeftirlitið Framtakssjóðnum undanþágu til að fara með eignarhlut í Icelandair umfram yfirtökuskylduna. Sú undanþága var hinsvegar tímabundin og skilyrt.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×