Viðskipti innlent

Varasjóðurinn stærri en heildartekjur

Vogar. Eirný Vals, bæjarstjóri Voga, segir bæjarstjórnina telja það ábyrga fjármálastjórn að ganga ekki á höfuðstól fjárhæðarinnar sem fékkst með sölu hlutabréfa í Hitaveitu Suðurnesja.
Vogar. Eirný Vals, bæjarstjóri Voga, segir bæjarstjórnina telja það ábyrga fjármálastjórn að ganga ekki á höfuðstól fjárhæðarinnar sem fékkst með sölu hlutabréfa í Hitaveitu Suðurnesja.

Skuldir sveitarfélagsins Voga námu 373 prósentum af tekjum sveitarfélagsins í árslok 2009. Eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga segir mikilvægt að Vogar vinni markvisst að því að lækka skuldirnar á næstu árum.

Heildarskuldir og -skuldbindingar Voga námu 2.256 milljónum króna í árslok 2009. Það ár voru tekjur sveitarfélagsins 605 milljónir og 98 milljóna króna mínus var á rekstrinum. Eftirlitsnefndin bendir á að Vogar hafi hins vegar þá sérstöðu að eiga háar fjárhæð í banka. Þessi fjárhæð nam 762 milljónum króna í árslok 2009 eða upphæð sem svarar til 115 prósenta af tekjum þess árs. Sveitarfélagið geti lækkað skuldir sínar.

Eirný Vals, bæjarstjóri Voga, segir peningana á innlánsreikningnum stafa af því að árið 2007 seldi sveitarfélagið meirihluta hlutabréfa sinna í Hitaveitu Suðurnesja.

„Framfarasjóður sveitarfélagsins er stofnaður í kjölfar þeirrar sölu, ekki hefur verið gengið á höfuðstól en vextir hafa verið notaðir meðal annars í framkvæmdir,“ segir Eirný sem kveður bæjarstjórnina telja það ábyrga fjármálastjórn að eiga varasjóð til að mæta skuldbindingum. Ræða þurfi málið tvisvar í bæjarstjórn og kynna á opnum fundi ef ganga eigi á höfuðstólinn.

Eirný segir Voga eiga í rekstrarvanda. Halda þurfi grunnþjónustu við hæfi þótt tekjur lækki milli ára. „Sveitarfélagið Vogar er ekki eitt um að standa frammi fyrir þeirri þversögn að hagræðing í rekstri gerir ekki meira en að mæta lækkun tekna milli ára en vinnur ekki upp gap sem er milli skatttekna og rekstrarútgjalda,“ segir bæjarstjórinn. - gar






Fleiri fréttir

Sjá meira


×