Viðskipti innlent

Engin áhrif á rekstur RÚV

Útvarpsstjóri segir að tillögur ESA muni ekki hafa áhrif á daglegan rekstur RÚV. Fréttablaðið/GVA
Útvarpsstjóri segir að tillögur ESA muni ekki hafa áhrif á daglegan rekstur RÚV. Fréttablaðið/GVA

ESA, Eftirlitsstofnun EFTA, hefur lagt fram formlega tillögu um að íslensk stjórnvöld breyti fjármögnun Ríkisútvarpsins ohf. (RÚV) og skilji á milli þess hluta starfsemi RÚV sem telja má í almannaþágu og þess sem lýtur markaðslögmálum.

Markmiðið með þessum umbeðnu breytingum er sagt vera að „stuðla að frekara gagnsæi varðandi opinber fjárframlög til Ríkisútvarpsins og til þess að draga úr hættu á samkeppnisröskun“ eins og það er orðað í tilkynningu á vef ESA.

Fjármögnunarfyrirkomulagi RÚV yrði með þessu breytt til samræmis við nýlegar reglur ESA um ríkisstyrki til aðila sem sjá um útsendingar í almannaþágu.

Stjórnvöld hafa frest til loka marsmánaðar til að bregðast við tillögum ESA.

Í tilkynningu ESA kemur þó fram að stofnunin hafi rætt athugasemdirnar við íslensk stjórnvöld, sem hafi þegar innleitt ákveðnar breytingar í samræmi við kröfur ESA. Til dæmis hefur eignarhaldi RÚV verið breytt þar sem fjármálaráðuneytið fer nú með eignar­hlut ríkisins í stað mennta- og menningarmála­ráðuneytis.

Með því var, að því er fram kemur á vef ESA, skilið á milli eignarhalds RÚV og opinbers eftirlits með útsendingarstarfsemi. Ætti það að skila óháðara eftirliti með útsendingar­starfsemi RÚV.

Páll Magnússon útvarpsstjóri segir í samtali við Fréttablaðið að athugasemdir ESA snúi fyrst og fremst að stjórnvöldum, sem muni í framhaldinu ákveða hvernig skuli mæta þeim tillögum.

„Þetta hefur engar eðlisbreytingar í för með sér fyrir RÚV, enda erum við að starfa undir nákvæmlega sama rekstrarformi og NRK í Noregi, sem lýtur sömu Evrópureglum um útvarp í almannaþágu og við. Ef það eru einhverjir tæknilegir misbrestir hjá okkur verða þeir lagaðir, en þetta hefur ekkert með daglegan rekstur RÚV að gera.“

thorgils@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×