Viðskipti innlent

Tilboð dótturfélags talið of hátt

verslað hjá högum Arion banki vill vita hvaða fjárfestar standa á bak við tilboð í kjölfestuhlut í Högum. Fréttablaðið/anton
verslað hjá högum Arion banki vill vita hvaða fjárfestar standa á bak við tilboð í kjölfestuhlut í Högum. Fréttablaðið/anton

viðskipti Arion banki ætlar ekki að selja kjölfestuhlut í smásölurisanum Högum án þess að fyrir liggi hverjir standa á bak við kaupin. Þá verða viðskiptin að vera að fullu fjármögnuð áður en skrifað verður undir samninga. Þetta segir Iða Brá Benediktsdóttir, upplýsingafulltrúi Arion banka.

Viðskiptablaðið fullyrti í gær að sjóðastýringafyrirtækið Stefnir, dótturfyrirtæki Arion banka, lífeyrissjóðir og fagfjárfestar hafi átt hagstæðasta tilboðið í hlut í Högum.

Eftir því sem næst verður komist er á borðinu tilboð upp á 34 prósenta hlut fyrir 4,1 milljarð króna. Það mun í kringum 15-20 prósentum hærra en aðrir buðu. Miðað við það nemur verðmæti Haga rétt rúmum 12 milljörðum króna.

Viðmælendur Fréttablaðsins segja verðið of hátt. Það komi Arion banka hins vegar vel sem færi meiri hagnað en ella í bækur sínar.

Þeir sömu vekja athygli á að Stefnir samdi á dögunum um kaup á rúmum helmingshlut í Sjóvá. Kaupin voru ekki fjármögnuð og standa viðræður enn yfir við fjárfesta.

„Við myndum aldrei selja stóran hlut í Högum án þess að það liggi fyrir hverjir eru á bak við kaupin. Það verður gefið upp ef af þessu verður,“ segir Iða Brá.

Ekki náðist í forsvarsmenn Stefnis við vinnslu fréttarinnar. - jab






Fleiri fréttir

Sjá meira


×