Erlent

Hermenn stöðvuðu tryllta syrgjendur í Norður-kóreu

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Tugþúsundir komu saman á götum Pyongyang í morgun til að fylgjast með líkfylgd Kims Jong-Ils en hún markaði upphaf tveggja daga útfarar leiðtogans látna.

Kim Jong Il lést sautjánda desember en útför hans hófst í dag. Norður-Kóreska ríkissjónvarpið sýndi beint frá líkfylgdinni en þar mátti sjá röð bíla aka hægt um torg og aðalgötur Pyongyang.

Við hlið líkkistunnar gekk Kim Jong-un sonur Kim Jongs-Ils dapur á svip, en hann mun taka við völdum af föður sínum. Fyrir aftan hann gekk frændi hans, Chang-Song Taek en hann er talinn vera lykilmaður í valdaskiptunum og einn nánasti ráðgjafi hins nýja leiðtoga. Yfirmenn hersins gengu jafnframt með þeim, en fréttaskýrendur telja það vera lið í valdaskiptunum, Kim Jong-Un njóti stuðnings þeirra.

Tugþúsundir flykktust út á götur og torg til að fylgjast með líkfylgdinni en fólk virtist almennt miður sín af sorg. Hermenn stóðu uppáklæddir í þúsundatali um alla borg og margir hneigðu sig, beygðir af harmi, þegar líkfylgdin ók hjá.

Fréttaveita AP náði jafnframt myndum þar sem hópur fólks verður svo tryllt af sorg að það hleypur fram á götuna í átt að líkkistunni en hermönnum tókst að stöðva það.

Enn ríkir mikil leynd yfir því hvernig útförinni verður háttað, en talið er að leiðtoginn látni verði lagður til hinstu hvílu einhverntímann á morgun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×