Viðskipti innlent

Eyrir Invest hagnaðist um 8 milljarða í fyrra

Hagnaður af rekstri Eyris Invest árið 2010 nam 52 milljónum evra eða rúmlega 8 milljörðum kr. Til samanburðar var tap á rekstrinum árið 2009 upp á 24 milljónir evra.

Í tilkynningu um uppgjörðið segir að heildareignir Eyris eru 426 milljónir evra sem fjármagnaðar eru með eigin fé og langtímalánum. Eigið fé í árslok 2010 var 187 milljónir evra og eiginfjárhlutfall er 44%.

Horfur í rekstri Eyris og lykileigna eru góðar. Á síðastliðnum árum hafa félögin stöðugt styrkt markaðsstöðu sína og eru vel í stakk búin til að njóta góðs af efnahagsbata á heimsvísu.

Lykileignir Eyris eru 32% eignarhlutur í Marel, 14% eignarhlutur í Össuri og 17% eignarhlutur í Stork BV sem á og rekur Stork-orkuiðnað og Fokker-flugiðnað.

„Staða Eyris er sterk og við erum að skila myndarlegum hagnaði á árinu 2010 sem er mikill viðsnúningur frá árinu 2009. Í fjárfestingarstarfssemi er betra að meta árangur yfir lengri tímabil en einungis eitt ár í senn. Við erum stolt af því hvernig tekist hefur að skapa verðmæti í Eyri á síðustu 3 árum við um margt erfiðar aðstæður, sem og á þeim 10 árum sem liðin eru frá stofnun félagsins," segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri félagsins.

„Stjórnendur og starfsfólk hjá okkar lykilfélögum hafa náð framúrskarandi árangri. Á síðustu árum hafa félögin stöðugt styrkt markaðsstöðu sína og eru vel í stakk búin til að njóta efnahagsbata á heimsvísu. Við horfum við því björtum augum til framtíðar."












Fleiri fréttir

Sjá meira


×