Viðskipti innlent

Kraftmikill, mjúkur og rúmgóður bíll

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Ford Edge SEL Plus Jepplingur sem sker sig úr í umferðinni. Þessi er af 2007-árgerð, 263 hestöfl með 3,5 lítra bensínvél.Fréttablaðið/ÓKÁ
Ford Edge SEL Plus Jepplingur sem sker sig úr í umferðinni. Þessi er af 2007-árgerð, 263 hestöfl með 3,5 lítra bensínvél.Fréttablaðið/ÓKÁ Fréttablaðið/ÓKÁ
Ford Edge SEL Plus af 2007-árgerðinni er sportlegur jepplingur sem sökum framúrstefnulegs útlits vekur áhuga. Vel hefur tekist til við hönnun bílsins og stórt grillið gefur honum dálítið grimmilegan svip. Inni í bílnum tekur á móti ökumanni og farþegum svört leðurinnrétting, öll hin smekklegasta.

Bíllinn er ríkulega búinn aukabúnaði; í aðgerðastýri er hægt að hafa stjórn á hljómflutningsgræjunum (sem vel að merkja eru sex diska geislaspilari og útvarp) og miðstöð, auk þess sem þar er skriðstillinn (e. cruise control) að finna. Hnapparnir eru þægilegir og engin hætta á að maður reki sig óvart í einhvern þeirra og skipti um útvarpsstöð. Miðstöðin er tölvustýrð og er rafmagn og hiti í framsætum.

Í svona bíl vildi maður þó reyndar gjarnan hafa sóllúgu. Hana vantaði í prufueintakið, þótt einhverjir hafi sjálfsagt splæst í glerþak og sóllúgu sem hægt er að fá sem aukabúnað með bílnum nýjum.

Jepplingurinn virðist ekkert mjög stór, en er engu að síður rúmir 4,7 metrar á lengd og 1,92 á breiddina. Maður finnur líka fyrir því þegar inn í bílinn er komið, því hann er reglulega rúmgóður og olnbogarými nægt fyrir ökumanninn. Farangursrýmið er stórt og vel fer um bæði ökumann og farþegana fjóra.



Óli Kristján ÁrmannssonFréttablaðið/Vilhelm
 Þá er Ford Edge líka reglulega skemmtilegur í akstri. Hann er svo sem enginn sportbíll, en er alveg ótrúlega mjúkur á veginum. Þá finnur maður líka vel þegar af stað er komið að ekkert vantar upp á aflið. Bíllinn er búinn sex strokka 3,5 lítra 263 hestafla bensínvél og gengur vel að rífa áfram tæplega tveggja tonna þungan skrokkinn. Kom því eilítið á óvart að bensíneyðslan skyldi ekki vera meiri, en væntanlega sér aksturstölva bílsins um að beita aldrifinu þannig að orka fari ekki til spillis. 

Líklegt má telja að innanbæjar eyði bíllinn nálægt þrettán lítrum á hundraðið og fari undir níu lítrana á vegum úti. Í hóflegum blönduðum akstri, þar sem skottast var yfir Hellisheiðina og farið í smásnatt í þéttbýliskjörnunum beggja vegna hennar, reyndist eyðslan ekki nema 11,8 lítrar á hundraðið. Utan um þessa tölfræði hélt tölva bílsins, sem líka lét ökumann vita í tíma þegar grynnka tók á tankinum og henni þótti ljóst að hann færi ekki lengra en 80 kílómetra á því sem eftir var. Láti maður þetta sem vind um eyru þjóta heldur bíllinn áfram að hnippa í mann reglulega, þar til í óefni er komið og vissara að taka bensín hið snarasta.

Í hnotskurn má því segja að þarna sé kominn bráðhuggulegur jepplingur sem sker sig passlega úr fjöldanum og er þægilegur í allri umgengni. Bíll sem enginn þarf að skammast sín fyrir að vera á, hvorki forstjórar né aðrir. Svo er bara spurning hvernig mönnum líst á verðmiðann, en á þennan grip, sem ekinn er tæpa 63 þúsund kílómetra, eru settar rétt rúmar 4,4 milljónir króna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×