Viðskipti innlent

Níutíu framtíðarstörf í kísilveri í Helguvík

Óli Kristján Ármannsson skrifar
Bráðið ál.
Bráðið ál.
Iðnaður Fjörutíu þúsund tonna kísilmálmverksmiðja rís í Helguvík samkvæmt samningum sem skrifað var undir í gær. Gengið var frá fjárfestingarsamningum milli stjórnvalda, Reykjanesbæjar og Íslenska kísilfélagsins ehf.

Jafnframt hefur verið kláraður orkusamningur við HS Orku og Landsvirkjun, hafnarsamningur við Reykjaneshöfn og viljayfirlýsing um orkuflutning við Landsnet.

Íslenska kísilfélagið, sem er í meirihlutaeigu bandaríska fyrirtækisins Globe Speciality Metals, kaupir 35 megavött* af orku frá Landsvirkjun og 30 megavött frá HS Orku. Þar með er mætt 65 megavatta jafnaðarorkuþörf verksmiðjunnar, en hún þarf 550 gígavött af raforku til starfsemi sinnar.

Gert er ráð fyrir að verksmiðjan verði tekin í notkun um mitt ár 2013, en framkvæmdir eiga að hefjast snemmsumars í ár, að því er fram kemur hjá Íslandsstofu. Í byrjun þessa árs rann starfsemi Fjárfestingastofu inn í Íslandsstofu, sem er samstarfsvettvangur stjórnvalda og atvinnulífs.

Reisa á verksmiðjuhús á 20 mánuðum og eru um 300 ársverk áætluð á framkvæmdatíma. Gert er ráð fyrir að um 90 manns fái vinnu við verksmiðjuna; sérfræðingar, iðnaðarmenn og ófaglærðir. Heildarfjárfesting í verkefninu er sögð nema 110 milljónum evra, eða sem svarar rúmum 17 milljörðum króna.

Í samningunum er gert ráð fyrir að Landsvirkjun sinni allri raforkuþörf verksmiðjunnar frá ársbyrjun 2016, en í tilkynningu Landsvirkjunar er haft eftir Herði Arnarsyni forstjóra að samningurinn marki tímamót. Fyrirtækið hafi stefnt að því að auka fjölbreytileika á meðal orkukaupenda og samningurinn beri því vitni.

„Um er að ræða nýja iðngrein, magn sem hæfir orkuframboði nú um stundir og iðnað sem greiðir hærra verð en fyrir þekkist á íslenska markaðnum," segir hann og kveður mat Landsvirkjunar að áhugaverða vaxtarmöguleika sé að finna í tengdri og afleiddri starfsemi, svo sem hreinsun á kísilmálmi.

Globe Speciality Metals er einn stærsti framleiðandi kísilmálms og sérhæfðs kísilblendis í heimi og fer með 85 prósenta hlut í Kísilfélaginu. Fimmtán prósent verða áfram í eigu Tomahawk Development á Íslandi, sem í fjögur ár hefur unnið að verkefninu. Íslenska kísilfélaginu var veitt starfsleyfi árið 2009 á grundvelli umhverfismats frá árinu áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×