Viðskipti innlent

Hagnaður tryggingarfélaga rúmir 4 milljarðar í fyrra

Samanlagður hagnaður skaðatryggingafélaga á árinu 2010 var um 4,1 milljarðar kr. Þar af hagnaðist Viðlagatrygging sem er ríkisstofnun sem starfar samkvæmt sérlögum og býr við sveiflukennda starfsemi, um rúma 2,1 milljarða kr.

Þetta kemur fram á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins. Þar segir að sé horft framhjá Viðlagatryggingu er hagnaður skaðatryggingafélaga rétt um 2 milljarðar kr. Hagnaður af vátryggingastarfsemi var 2,6 milljarðar kr. en hins vegar var tap af fjármálastarfsemi sem nam tæpum 600 milljónum kr. Helsta ástæða þess taps eru gjöld vegna matsbreytinga á fjárfestingum sem samanlagt námu tæpum 2 milljarða kr. á árinu.

Eignir skaðatryggingafélaganna námu rúmlega 124 milljörðum kr. í árslok 2010, samanborið við tæplega 118 milljarða kr. árið áður og hækkuðu um 5,7%.

Eigið fé skaðatryggingafélaganna hækkaði einnig, eða um 8,5% og er nú samanlagt rúmlega 52 milljarðar kr., eða 35 milljarðar kr. án Viðlagatryggingar. Staða eigin fjár er misjöfn á milli félaga.  Ekkert skaðatryggingafélag greiddi arð á síðasta ári.

Eins og árið áður voru öll líftryggingafélögin rekin með hagnaði á árinu 2010. Samanlagður hagnaður þeirra dróst þó saman um 14,3% og var 1,4 milljarðar kr. samanborið við tæplega 1,7 milljarða kr. hagnað árið áður.

Samanlagðar eignir líftryggingafélaganna voru 14,3 milljarðar kr. í árslok 2010, sem er 6,1% aukning frá árslokum 2009. Eigið fé líftryggingafélaganna var 6,0 milljörðum kr. sem er 12,8% hækkun frá árinu áður. Þrjú stærstu líftryggingafélögin greiddu arð á árinu 2010, samanlagt 1,2 milljarða kr. Á árinu áður námu arðgreiðslur tveggja líftryggingafélaga 800 milljónum kr.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×