Viðskipti innlent

Síðasta vika skilanefndanna að hefjast

Hafsteinn Hauksson skrifar
Skilanefnd Glitnis er meðal þeirra sem hefur sína síðustu viku á morgun.
Skilanefnd Glitnis er meðal þeirra sem hefur sína síðustu viku á morgun.
Skilanefndir bankanna hefja á morgun síðustu starfsviku sína. Viðskiptaráðherra vildi hraða endurskipulagningu skulda fyrirtækja með því að leggja þær niður um áramótin, en skilanefndarmenn segja að starfsemin breytist ekkert eftir sem áður.

Skilanefndir bankanna verða lagðar niður frá og með áramótum þegar þær sameinast slitastjórnum í samræmi við breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Árni Páll Árnason, viðskiptaráðherra, hefur farið hörðum orðum um skilanefndirnar og sagði engum til góðs að búa til eilífðarvélar sem skapa tækifæri á að menn geti skammtað sér laun og aðstöðu um lengri hríð.

Þá kom fram í skýrslu Samkeppniseftirlitsins frá því í sumar að rekja mætti hægagang við endurskipulagningu fyrirtækja til þess að þeir aðilar sem starfa við að leysa úr vandanum hafa af því talsverðar tekjur og byggja lifibrauð sitt á því. Hagsmunir þeirra vinni því gegn hagsmunum samfélagsins af hraðri úrlausn. Viðskiptaráðherra sagði sama dag og skýrslan kom út að með því að binda endi á skilanefndirnar yrði flýtt fyrir því að bankarnir kæmust í hendurnar á raunverulegum eigendum og ákvarðanir yrðu teknar á viðskiptalegum forsendum.

Lárentsínus Kristjánsson, formaður skilanefndar Landsbankans, sagði nýlega í viðtali við Fréttablaðið að hann skildi ekki þessi rök viðskiptaráðherra, og ekkert myndi breytast við það að skilanefndirnar verði lagðar niður.

Heimir Haraldsson hjá skilanefnd Glitnis segir sömu sögu, afar fáir aðilar sitji í skilanefndunum sjálfum, en starfsfólk þeirra haldi hins vegar störfum sínum áfram með óbreyttu sniði undir slitastjórnunum í öllum meginatriðum.

Steinar Þór Guðgeirsson hjá Kaupþingi tekur í sama streng.

Skilanefndarmennirnir setja ekki út á þess tilhögun, en Heimir hjá Glitni taldi jafnvel að það væri praktískt að sameina störf skilanefnda og slitastjórna í eina nefnd. Þeir Steinar sjá fram á rólega síðustu viku í starfi, enda lengi verið í undirbúningi að leggja nefndirnar niður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×