Viðskipti innlent

Bankarnir ráðandi á hlutabréfamarkaði

Landsbanki, Íslandsbanki og Arion banki eiga hlut í öllum skráðum félögum landsins nema einu. Samanlagt markaðsvirði þessara hluta er rúmlega 36 milljarðar króna. Hlutur Landsbankans í Marel er talinn 14,8 milljarða virði.

Stóru viðskiptabankarnir þrír eru, beint eða óbeint, á meðal stærstu eigenda í öllum skráðum félögum á Íslandi nema Nýherja. Samtals eru þekktir eignarhlutir bankanna þriggja í HB Granda, Össuri, Icelandair, Marel Food Systems og Högum rúmlega 36 milljarða króna virði.

Arion banki eignaðist 33,02% hlut í sjávarútvegsfyrirtækinu HB Granda í október síðastliðnum eftir skuldauppgjör bankans við Kjalar, félag í meirihlutaeigu Ólafs Ólafssonar. Alls er virði hlutarins um 6,8 milljarðar króna. HB Grandi er skráð á First North markaðinn.

Íslandsbanki er stærsti einstaki eigandi flugfélagsins Icelandair með 21,13% eignarhlut. Virði hans er 5,5 milljarðar króna. Íslandsbanki leysti til sín um 42% hlut í félaginu í mars 2009 og átti fyrir um 5% hlut. Í júní 2010 minnkaði hlutur bankans í Icelandair töluvert þegar Framtakssjóður Íslands (FSÍ) lagði flugfélaginu til nýtt eigið fé og eignaðist við það um 30% hlut. Síðan hafa báðir aðilarnir selt hluta af eign sinni. FSÍ á í dag 19,01% hlut sem metinn er á 4,9 milljarða króna.

Stærsti eigandi FSÍ er Landsbanki Íslands með 27,6% eignarhlut. Óbein eign Landsbankans í Icelandair er því 1,4 milljarða króna virði.

Stærsti eigandi Marel Food Systems, sem skráð er í Kauphöllina, er Eyrir Invest með 35,6% eignarhlut. Stærstu eigendur Eyris eru Landsbankinn og dótturfélag hans, Horn fjárfestingarfélag, með samtals 27,5% hlut. Virði hans er um níu milljarðar króna. Auk þess á Landsbankinn 6,3% beinan hlut í Marel sem metinn er á 5,8 milljarða króna miðað við síðasta skráða gengi félagsins. Samtals nemur eign Landsbankans og dótturfélags hans í Marel því 14,8 milljörðum króna.

Össur hf. afskráði sig úr íslensku kauphöllinni í nóvember 2010 og flutti öll viðskipti með hlutabréfin í kauphöllina í Kaupmannahöfn. Íslenska kauphöllin ákvað hins vegar, að eigin frumkvæði og án samráðs við félagið, að taka upp viðskipti með hlutabréfin að nýju frá og með 28. mars 2011. Landsbankinn á 4,8% hlut í Össuri hf. Markaðsvirði hlutarins er um 4,2 milljarðar króna.

Fyrsta nýskráða félag í Kauphöllina eftir bankahrun er Hagar, sem lauk útboði í síðustu viku. Búist er við því að viðskipti með bréf í félaginu hefjist næstkomandi fimmtudag. Stærsti einstaki eigandi Haga er Eignabjarg, dótturfélag Arion banka, með 21,7% eignarhlut. Miðað við útboðsgengið, sem var 13,5 krónur á hlut, er virði hans tæplega 3,6 milljarðar króna. Arion banki þarf að selja eignarhlutinn fyrir 1. mars næstkomandi vegna skilyrða sem Fjármálaeftirlitið hefur sett.

Eina félagið sem skráð er í Kauphöllinni sem stóru viðskiptabankarnir þrír eru ekki á meðal 20 stærstu hluthafa í er Nýherji. Auk þess eiga fjölmargir sjóðir sem stýrt er af rekstrarfélögum í eigu bankanna eignarhluti í skráðum félögum.

thordur@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×