Viðskipti innlent

Icesave: Skuldir Íslands gætu aukist um fleiri hundruð milljarða

Friðrik Indriðason skrifar
Ef Ísland tapar Icesavemálinu fyrir EFTA dómstólnum gæti það þýtt aukna skuldabyrði sem næmi fleiri hundruð milljörðum króna eða allt að hálfri landsframleiðslu landsins.

Gangi dómur EFTA dómstólsins okkur í óhag eiga Bretar og Hollendingar hugsanlega rétt á að krefjast þess að allar Icesave innistæðurnar verði greiddar upp í topp en ekki bara þær rúmlega 20.000 evrur á reikning sem tilskipunin um innistæðutryggingar og Icesavesamningarnir gengu út frá. Mikil óvissa er þó um þessi mál á þessu stigi og erfitt að spá fyrir um hver viðbrögð Breta og Hollendinga verða.

Bæði ríkin gætu höfðað skaðabótamál til að fá að minnast kosti það lágmark sem þau lögðu út á sínum tíma en það voru 50.000 pund á reikning í Bretlandi og 100.000 evrur á reikning í Hollandi. Hér eru því hundruð milljarða króna í húfi fyrir íslenska þjóðarbúið.

Þar að auki gætu Bretar og Hollendingar farið fram á að fá markaðsvexti af Icesaveskuldinni greidda frá haustinu 2008 þegar Landsbankinn hrundi. Bara þær vaxtagreiðslur myndu hlaupa á hundruðum milljarða króna.

Varlega áætlað gætu því þjóðarskuldir Íslands aukist um 700 til 800 milljarða króna eða sem nemur hálfri landsframleiðslu landsins ef allt fer á versta veg. Sem fyrr segir er þó mikil óvissa um hvernig málið mun þróast.

Í tilkynningu ESA um málið kemur fram að það verði rekið sem samningsbrotamál á EES samningnum. Bent hefur verið á að ESA er með yfir 90% árangur í slíkum málum. Eftirlitsstofnunin hefur eingöngu tapað tveimur af 29 samningsbrotamálum frá upphafi við EFTA dómstólinn.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×