Erlent

Cesária Évora látin

Hugrún Halldórsdóttir skrifar
Söngkonan Cesária Évora frá Grænhöfðaeyjum lést í heimalandi sínu í dag sjötug að aldri.

Évora hafði verið heilsuveil síðustu ár ævinnar en hún fékk heilablóðfall á tónleikaferðalagi um Ástralíu árið 2008 og gekkst nokkru síðar undir hjartaaðgerð. Fyrr á þessu ári tilkynnti söngkonan aðdáendum sínum að hún þyrfti að binda enda á söngferilinn vegna heilsufarsvandamála.

"Ég hef engan styrk, engan kraft. Ég bið aðdáendur mína um að fyrirgefa mér, en ég verð að hvílast. Mér þykir það óendanlega leitt að þurfa að kveðja vegna veikindanna, ég hefði viljað gefa svo miklu meira af mér til þeirra sem hafa fylgt mér svo lengi," sagði Évora í september síðastliðnum.

Söngkonan hóf feril sinn með því að leika á krám á Mindelo-eyju í Grænhöfðaeyjaklasanum. Fyrstu plötuna tók hún ekki upp fyrr en árið 1998. Allt í allt gaf hún út tíu plötur og hlaut meðal annars Grammy-verðlaun fyrir plötuna Voz D'amor.

Évora ætti að vera Íslendingum kunn en hún hélt tónleika hér á landi árið 2000 og endurtók leikinn tveimur árum síðar.

Tveggja daga þjóðarsorg hefur verið lýst yfir á Grænhöfðaeyjum vegna fráfalls söngkonunnar virtu og dáðu. Hér má sjá myndband með berfættu dívunni.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×