Erlent

Eini kommúnistaleiðtoginn sem fékk starfið í arf

Kim Jong-il var eini kommúnistaleiðtogi heimsins sem fékk starf sitt í arf frá föður sínum.

Kim Jong-il fæddist í Sovétríkjunum 1942. Faðir hans, Kim Il-sung, stýrði þar herdeild kóreanskra og kínverskra útlaga en flutti heim og varð leiðtogi Norður Kóreu við stofnun ríkisins 1948.

Kim Jong-il tók við stjórnartaumunum árið 1994 þegar faðir hans lést. Lítið er vitað um Kim Jong-il enda landið lokað og mjög einangrað á alþjóðlegum vettvangi. Hann hefur legið undir harðri gagnrýni fyrir umfangsmikil mannréttindabrot í Norður Kóreu og að hafa dregið verulega úr stöðuleikanum á þessu heimssvæði með tilraunum sínum til að koma sér upp kjarnorkuvopnabúri og meðaldrægum eldflaugum til að flytja þessi vopn.

Fjölmiðlar í Suður Kóreu hafa lýst Kim Jong-il sem skrautgjörnum glaumgosa sem gekk um á háum hælum til að virðast hærri en hann er.

Kim Jong-il hafði verið heilsuveill á síðustu árum og vitað er að hann fékk alvarlegt hjartaáfall árið 2008 en hann lést síðan úr hjartaáfall um helgina. Starf hans gengur áfram í erfðir því þriðji sonur hans mun taka við stjórnartaumunum í Norður Kóreu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×