Viðskipti innlent

8,7 milljörðum lakari vöruskiptajöfnuður

Vöruskiptajöfnuðurinn á fyrstu tíu mánuðum ársins var tæpum átta komma sjö milljörðum króna lakari en á sama tíma árið áður. Verðmæti útflutnings jóks þó um rúm tólf prósent milli ára.

Í októbermánuði voru vörur fluttar út fyrir tæplega 53 milljarða króna og inn fyrir tæplega 45 milljarða. Vöruskiptin í mánuðinum voru því hagstæð um 8 milljarða sem er rúmlega 3 og hálfum milljarði króna lakari vöruskiptajöfnuður miðað við sama mánuð í fyrra.

Fyrstu tíu mánuðina á þessu ári fluttu Íslendingar út vörur fyrir tæplega 513 milljarða króna en inn fyrir rúmlega 423 og nam afgangur á vöruskiptunum við útlönd því 89 og hálfum milljarði króna. Á sama tíma í fyrra voru vöruskiptin hagstæð um rúmlega 98 milljarða og því nemur mismunurinn milli ára 8,7 milljörðum.

Verðmæti vöruútflutningsins í janúar til október á þessu ári nam tæplega 56 milljörðum eða rúmlega 12 prósentum meira en á sama tíma árið áður. Sjávarafurðir voru rúmlega 40% alls útflutnings og jókst verðmæti þeirra um rúmlega 13% milli ára. Útfluttar iðnaðarvörur voru tæplega 55% alls útflutnings og var verðmæti þeirra tæplega 11% meira en á sama tíma árið áður.

Fyrstu tíu mánuði ársins nam verðmæti vöruinnflutnings 64 og hálfum milljarði eða 18% meira en á sama tíma árið áður.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×