Handbolti

Hrafnhildur: Svakalega mikilvægt að fá þessa leiki á móti Tékkum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hrafnhildur Skúladóttir í hópi landsliðskvenna.
Hrafnhildur Skúladóttir í hópi landsliðskvenna. Mynd/Anton
Hrafnhildur Skúladóttir hefur tekið við fyrirliðabandinu hjá íslenska kvennalandsliðinu í handbolta sem er á leiðinni á HM í Brasilíu í næstu viku. Hrafnhildur mun leiða íslenska liðið út á völlinn í kvöld þegar liðið mætir Tékklandi í vináttulandsleik í Vodafone-höllinni á Hlíðarenda. Leikurinn hefst klukkan 19.30.

„Æfingarnar eru búnar að nýtast mjög vel. Við erum búnar að fara vel yfir sókn og vel yfir vörn. Mér finnst við líta mun betur út en við gerðum á móti Úkraínu. Við vorum skelfilegar á móti Úkraínu og vorum ekkert í standi. Deildin var varla byrjuð hérna heima og við vorum ekki komnar í almennilegt spilform," sagði Hrafnhildur og vísar þá í leik á móti Úkraínu í undankeppni EM sem tapaðist í Laugardalshöllinni.

„Það er svakalega mikilvægt að fá þessa leiki á móti Tékkum. Við ætlum klárlega að nýta þá leiki mjög vel og fá góða spilaæfingu," segir Hrafnhildur en tékkneska liðið er sterk og vann það íslenska með þremur mörkum í æfingaleik í Póllandi í haust.

Íslenska landsliðið er á leiðinni á HM í Brasilíu en þetta er í fyrsta sinn íslensk kvennalandslið kemst inn á Heimsmeistaramót.

„Ég byrjaði sjálf í landsliðinu fyrir fjórtán árum og það er búinn að vera draumurinn að komast á svona stórt mót. Þetta er frábært," segir Hrafnhildur en viðurkennir fúslega að riðill íslenska liðsins er mjög erfiður.

„Það er ekki nóg með það að við erum óheppnar með riðil þá erum við líka óheppnar með krossriðilinn ef við komust í sextán liða úrslitin. Við hefðum labbað í gegnum þennan D-riðil til dæmis," sagði Hrafnhildur í léttum tón en í D-riðlinum eru Svíþjóð, Danmörk, Króatía, Argentína, Fílabeinsströndin og Úrúgvæ. Ísland er í riðli með Noregi, Svartfjallalandi, Þýskalandi, Angóla og Kína.

„Við fáum kannski bara meira út úr þessu og betri og erfiðari leiki. Það sem skiptir máli fyrir okkur er að við berjumst eins og ljón með íslenska hjartanu og göngur sáttar af velli eftir að hafa gert allt okkar. Þá held ég að allir verði sáttir bæði við og þeir sem horfa á okkur.  Ég hef trú á þessum hóp því þetta er flottur hópur. Við ætlum að bera höfuðið hátt og koma hátt með það heim líka," segir Hrafnhildur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×