Körfubolti

Íslensku strákarnir í Sundsvall í stuði í sigri á toppliðinu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hlynur Bæringsson átti frábæran leik í kvöld.
Hlynur Bæringsson átti frábæran leik í kvöld. Mynd/Valli
Sundsvall vann níu stiga sigur á Borås Basket, 105-96, í sænsku úrvalsdeildinni í körfubolta í kvöld en Borås var á topp deildarinnar fyrir leikinn. Sundsvall setti í fimmta gír í fjórða leikhlutanum sem liðið vann 28-15 en það voru Íslendingarnir í liðinu sem voru öðrum fremur bestu menn vallarins.

Íslensku leikmennirnir fóru á kostum í leiknum og voru saman með 71 stig, 22 fráköst og 15 stoðsendingar. Hlynur Bæringsson var atkvæðamestur með 30 stig og 14 fráköst, Jakob Örn Sigurðarson var með 23 stig, 6 fráköst og 6 stoðsendingar og Pavel Ermolinskij bætti við 18 stigum og 7 stoðsendingum.

Sundsvall byrjaði vel og komst í 9-3 þar sem Hlynur Bæringsson skoraði sjö stiganna.  Sundsvall náði mest átta stiga forskot í fyrsta leikhlutanum, 24-16, þegar rúmar tvær mínútur voru eftir en var á endanum bara 26-24 yfir eftir fyrsta leikhlutann.

Pavel Ermolinskij skoraði fimm fyrstu stig annars leikhluta og Sundsvall komst í 29-24. Sundsvall var síðan 40-37 yfir þegar Borås snéri leiknum með því að skora 9 stig í röð og komast í 46-40.

Borås var sex stigum yfir í hálfleik, 55-49. Hlynur var með 14 stig og 8 fráköst í fyrri hálfleiknum, Pavel skoraði 12 stig og Jakob var með 8 stig, 4 fráköst og 3 stosðendingar.

Sundsvall var búið að jafna og komast yfir eftir aðeins fjórar mínútur í þriðja leikhluta og liðin skiptust síðan á því að hafa forystuna í framhaldinu. Borås var á endanum með fjögurra stiga forskot fyrir lokaleikhlutann, 81-77, en íslensku leikmennirnir þrír voru þá komnir með 45 stig (Hlynur 21, Pavel 14, Jakob 10).

Sundsvall byrjaði fjórða leikhlutinn frábærlega, vann fyrstu rúmar sex mínúturnar 22-4 og komst í 99-85. Hlynur, Pavel og Jakob skoruðu allir á þessum kafla og alls 20 af þessum 22 stigum.  Sundsvall vann að lokum með níu stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×