Handbolti

Steinar Ege búinn að framlengja við AG til 2014

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Steinar Ege.
Steinar Ege. Mynd/AFP
Steinar Ege, markvörður AG Kaupmannahöfn og norska landsliðsins, er ekkert farinn að hugsa um að leggja skóna á hilluna. Hann er nefnilega nýbúinn að skrifa undir nýjan samning við danska liðið sem nær til sumarsins 2014.

Með AG Kaupmannahafnarliðinu spila fjórir íslenskir leikmenn: Ólafur Stefánsson, Snorri Steinn Guðjónsson, Guðjón Valur Sigurðsson og Arnór Atlason.

Steinar Ege er 39 ára gamall og er að flestum talinn vera einn af bestu markvörðum heims. Hann berst um markvarðarstöðuna í AG-liðinu við danska landsliðsmarkvörðinn Kasper Hvidt. Ege er fjórum árum eldri en Hvidt og Ege verður nýorðinn 42 ára gamall þegar samningurinn rennur út.

„AG Kaupmannahöfn er lið sem er að fara gera góða hluti á næstu árum. Ég er ótrúlega ánægður að fá að spila með þessu liði og ég hef trú á því að hér sé allt til alls til þess að komast á toppinn," sagði Steinar Ege.

„Ég er frískur og í súper formi. Ég sé því enga ástæðu að hætta núna. Mér og fjölskyldunni líður vel í Kaupmannahöfn og það er ekki til betri klúbbur en AGK," sagði Ege.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×