Handbolti

Dagur og Guðmundur mætast í beinni í kvöld

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðmundur Guðmundsson tapaði ekki fyrir Degi á síðasta tímabili.
Guðmundur Guðmundsson tapaði ekki fyrir Degi á síðasta tímabili. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Dagur Sigurðsson og lærisveinar hans í Füchse Berlin taka á móti Guðmundi Guðmundssyni og lærisveinum hans í Rhein-Neckar Löwen í þýsku úrvalsdeildinni í handbolta í kvöld en leikurinn hefst klukkan 18.00 og er í beinni útsendingu á Stöð 2 Sport.

Füchse Berlin er í 3. sæti deildarinnar með tveimur stigum meira en Rhein-Neckar Löwen liðið sem er í 5. sætinu. Füchse hefur unnið þrjá síðustu deildarleiki sína og 4 af 5 heimaleikjum sínum á tímabilinu. Eina tap liðsins kom á móti toppliði Kiel.

Rhein-Neckar Löwen hefur aðeins tapað einum af síðustu sjö deildarleikjum sínum og það tap kom í síðasta útileik liðsins á móti TuS N-Lübbecke. Löwen-liðið vann síðasta leik sinn sem var á móti Eintracht Hildesheim.

Lið Dags og Guðmundar mættust tvisvar sinnum í þýsku úrvalsdeildinni í fyrra. Liðin gerðu fyrst 28-28 jafntefli í Berlín í október en Rhein-Neckar Löwen vann síðan seinni leikinn með einu marki, 33-32 í mars. Það má því búast við spennandi leik í kvöld.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×