Handbolti

Sigur á Bretum í rólegum leik

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari íslenska landsliðsins.
Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari íslenska landsliðsins. Mynd/Anton
Íslenska kvennalandsliðið í handbolta vann í dag þriggja marka sigur á Bretum, 22-19, í æfingaleik ytra í dag. Liðið heldur áfram för sinni til Brasilíu í nótt.

För íslenska landsliðshópsins hófst snemma í morgun en þá flaug hópurinn til Lundúna. Það var svo spilað síðdegis og heldur ferðalagið svo áfram í nótt með beinu flugi til Brasilíu.

„Við höfðum ekki miklar áhyggjur af úrslitunum og leyfðum frekar öllum að spila,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari íslenska landsliðsins, við Vísi í kvöld. „Reyndar hvíldu þær Anna Úrsúla, Rut og Hanna vegna smávægilegra meiðsla,“ bætti hann við.

„Það var fínt að leyfa leikmönnum að hreyfa sig aðeins. Við vorum aðeins að prófa okkur áfram með varnarleik og nokkra þætti í sóknarleiknum.“

Landsliðshópurinn lendir klukkan átta í fyrramálið að staðartíma í Brasilíu. Liðið mun svo æfa klukkan 13.30 en fyrsti leikur Íslands verður gegn Svartfjallalandi á laugardaginn.

„Það er 30 stiga hiti í Brasilíu þessa dagana og við höfum nú nokkra daga til að jafna okkur á aðstæðum. Við ættum því að vera í fínu standi þegar mótið hefst á laugardaginn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×