Skoðun

Hommar og hagfræði

Hafsteinn Hauksson skrifar
Það fer oft í taugarnar á venjulegu fólki að hagfræðingar gera sig seka um að gefa sér ofureinfaldar forsendur um það hvernig fólk hegðar sér, sem draga má saman í eina einfalda setningu; fólk bregst við hvötum.

Þegar mjólkin úti í búð hækkar í verði myndast hvati fyrir okkur til að kaupa minna af henni, og þegar Coke og Pepsi kosta það sama höfum við hvata til að kaupa þá tegund sem okkur langar meira í.

Þó sumir séu reyndar til í að fallast á að hagfræðingar geti lýst svona búðarferð í Bónus með fínu eftirspurnarjöfnunum sínum, þá finnst mörgum að fræðigreinin nái varla mikið lengra. Almennt séð vill fólk nefnilega trúa því að maðurinn sé miklu flóknari en svo að hægt sé að lýsa öllum okkar ákvörðunum með einhverri kostnaðar- og ábatagreiningu.

Hver heldur til dæmis að kostnaður og ábati geti útskýrt jafnflókið fyrirbæri og kynhegðun? Svarið er einfalt: Hagfræðingurinn Andrew M. Francis.

Kynmök eins og hver önnur vörukaup


Hann gekk út frá því að um kynmök gildi það sama og vörukaup – þó ekkert sé greitt fyrir þau fylgi þeim engu að síður einhver kostnaður sem felst meðal annars í líkindunum á því að fá kynsjúkdóm. Eftir því sem þau kosta svo meira, þeim mun minna stundar fólk af þeim.



Francis skoðaði könnun á kynhegðun sem náði til 3500 manns í Bandaríkjunum og framkvæmd var á öndverðum 10. áratugnum þegar HIV smit voru nánast eingöngu tengd við samkynhneigða karlmenn.

 

Hann komst að því að bæði karlar og konur sem áttu eyðnisjúkan ættingja, og höfðu því séð með eigin augum hversu hryllilegur sjúkdómurinn er, voru mun ólíklegri til að laðast að körlum eða stunda kynlíf með þeim en ella. Karlarnir voru semsagt ólíklegri til að vera hommar, og konurnar voru líklegri til að vera lesbíur.

 

Með öðrum orðum hafði hugmynd þeirra um aukinn "kostnað" af kynmökum með körlum þau áhrif að fólkið dró úr þeim, alveg eins og með mjólkurkaupin í Bónus.

Endaþarmsmök – en með konum


Það sem rennir stoðum undir þessa kenningu er sú ótrúlega staðreynd að karlmennirnir sem áttu eyðnismitaðan ættingja voru líklegri til að stunda endaþarmsmök en hinir - en með konum! Þýðir það að þeir voru skápahommar sem höfðu einfaldlega fundið sér staðkvæmdarvöru við kynlíf með öðrum körlum í endaþarmsmökum með konum, þegar hið fyrrnefnda "hækkaði í verði"?

Þótt niðurstöður Francis séu með ólíkindum áhugaverðar eru það kannski einmitt rannsóknir eins og þessi sem gerir fólk andsnúið hagfræði. En sama hvað fólki finnst, þá sýnir hún fram á að greiningartæki hagfræðinnar þekkja engin takmörk, og það sem meira er; hagfræðingar eru rétt að byrja að nota þau.

Heimild: The Economics of Sexuality: The Effect of HIV/AIDS on Homosexual Behaviour in The United States e. Andrew M. Francis





Skoðun

Sjá meira


×