Handbolti

Rakel með slitið krossband og missir af HM

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rakel Dögg Bragadóttir í leik með íslenska landsliðinu.
Rakel Dögg Bragadóttir í leik með íslenska landsliðinu. Mynd/Anton
Rakel Dögg Bragadóttir, fyrirliði íslenska landsliðsins í handbolta, verður ekki með Íslandi á HM í Brasilíu sem hefst eftir tvær vikur þar sem hún er með slitið krossband í hné.

Þetta staðfesti hún í samtali við Morgunblaðið. Rakel Dögg meiddist í leik með liði sínu, Levanger, í norsku úrvalsdeildinni nú í vikunni. Var það síðasti leikur liðsins fyrir HM en Rakel Dögg skoraði átta mörk í umræddum leik.

Hún kom svo til landsins í gær þar sem staðfest var að krossbandið væri slitið. „Ég sagði við sjúkraþjálfarann sem kom inn á þegar ég meiddist að krossbandið væri farið. Hann sagði að svo þyrfti ekki að vera en því miður hafði ég rétt fyrir mér,“ sagði Rakel Dögg.

„Ég er búin að æfa mikið og leggja svakalega á mig fyrir mótið í Brasilíu. Það er ekkert eðlilega fúlt að lenda í þessu síðustu mínúturnar fyrir mótið ef svo má segja. Síðustu tveir dagar eru búnir að vera mjög erfiðir. Ég er að missa af stærsta íþróttaviðburði sem ég hefði mögulega getað tekið þátt í.“

Rakel Dögg verður væntanlega 6-9 mánuði að jafna sig á meiðslunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×