Viðskipti innlent

Enginn rannsóknaraðili kvaddur til vitnis

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður er verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.
Gestur Jónsson hæstaréttarlögmaður er verjandi Jóns Ásgeirs Jóhannessonar.
Enginn þeirra sem rannsakað hefur meint skattalagabrot Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í skattahluta Baugsmálsins svokallaða var kallaður sem vitni fyrir dóminn. Þetta sagði Gestur Jónsson lögmaður hans þegar hann krafðist sýknudóms í málflutningi sínum fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Það væri engu að síður venja að menn sem kæmu að rannsókn mála væru kallaðir til vitnis.

Gestur varpaði fram þeirri spurningu af hverju ákæruvaldið hefði ekki séð ástæðu til að kalla rannsóknaraðila, frá skattrannsóknarstjóra, ríkisskattstjóra eða ríkislögreglustjóra fyrir dóminn . Hluti af ástæðunni væri sá að málsmeðferðartíminn væri orðinn svo langur að margir af þeim sem komu að rannsókn málsins væru komnir í allt önnur störf.

Gestur sagði að sakborningar í málinu hefðu allir neitað sök og gefið skýringar á sakarefninu. Þá sagði Gestur jafnframt að ákæruvaldið hefði kallað níu vitni fyrir dóminn. Framburður þeirra styddi framburð sakborninga. Það yrði því ekki sakfellt á grundvelli vitnisburðar þeirra.

Loks sagði Gestur að fyst játning lægi ekki fyrir og engin sönnun fengist með framburði vitna þá yrði sönnun að fást með skjölum sem lægju fyrir í málinu. Gestur sagðist hafa tekið eftir því að saksóknari sækti alla sína sönnunarfærslu í gögn frá skattayfirvöldum, sem eru skattrannsóknarstjóri, ríkisskattstjóri og yfirskattanefnd. Málsmeðferð hjá fyrrgreindum stjórnvöldum geti ekki verið grundvöllur sakfellingar fyrir dómi vegna þess hve ólík málsmeðferðin hjá þeim er málsmeðferðinni fyrir dómi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×