Viðskipti innlent

Útflutningsfyrirtæki ætla að auka umsvif sín erlendis

Sóknarhugur er í fyrirtækjum sem starfa í útflutningsgreinum eða eru með starfsemi erlendis. Ríflega helmingur þeirra (56%) hyggst auka útflutning eða erlenda starfsemi á næstu 2-3 árum, tæpur þriðjungur (29%) telur það óvíst en 15% fyrirtækjanna hyggjast ekki gera það.

Þetta kemur fram í nýrri könnun Samtaka atvinnulífsins á rekstrarhorfum fyrirtækja innan Samtaka atvinnulífsins  sem gerð var dagana 6.-11. október 2011. Um 27% fyrirtækjanna sem tóku þátt í könnuninni  starfa í útflutningi eða eru með starfsemi erlendis.

Í umfjöllun um málið á vefsíðu SA segir að innan ferðaþjónustunnar hyggjast 75% þeirra sem sögðust vera með erlenda starfsemi efla hana á næstu 2-3 árum, 62% fyrirtækja í iðnaði, 45% fyrirtækja í fiskvinnslu, 24% í útgerð og 11% í verslun og þjónustu.

Þetta er öllu jákvæðari mynd en vaxtahorfurnar innanlands. Á næstu sex mánuðum hyggjast sex af hverjum tíu (63%) aðildarfyrirtækja SA ekki gera breytingar á starfsmannafjölda og aðeins 18% áforma fjölgun starfsmanna.

Þá eru fjárfestingaráform atvinnuveganna áfram í algjöru lágmarki en aðeins rúmlega 14% aðildarfyrirtækja SA hyggjast ráðast í umtalsverðar fjárfestingar eða endurbætur á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×