Viðskipti innlent

Styrkir stoðir rekstursins enn frekar

Stefán Hrafnkelsson, framkvæmdastjóri Betware og stærsti einstaki eigandi.
Stefán Hrafnkelsson, framkvæmdastjóri Betware og stærsti einstaki eigandi.
„Þetta er rennir styrkari stoðum undir reksturinn," segir Stefán Hrafnkelsson, framkvæmdastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins Betware, en það hefur gengið frá samningi við Cirsa Gaming Corporation á Spáni, eins og greint var frá í Fréttablaðinu í morgun. Cirsa, sem er með höfuðstöðvar á Spáni, rekur 32 spilasali, 83 rafræna spilasali, yfir 32 þúsund spilakassa, 88 bingósali og 139 íþróttaspilasali á Spáni, Ítalíu og í Mið- og Suður-Ameríku.

Stefán segir að samningurinn sé mikilvægur og geti til framtíðar litið fjölgað tækifærum fyrirtækisins á erlendum mörkuðum. „Við gerum okkur vonir um að fjölgi tækifærum og styrki tekjugrunninn til framtíðar, um að minnsta kosti 25%," sagði Stefán. Efni samningsins, þ.e. upphæðir við Cirsa er trúnaðarmál að sögn Stefáns.

Að sögn Stefáns er þetta er stór áfangi í markaðs- og sölustarfi Betware, en Cirsa er fjórði erlendi viðskiptavinur fyrirtækisins auk danska og spænska ríkislóttósins og fylkislottósins í Bresku Kólumbíu í Kanada. Auk stórra erlendra viðskiptavina er Íslensk getspá viðskiptavinur Betware.

Starfsmenn Betware eru rúmlega hundrað á Íslandi, í Danmörku, á Spáni og í Kanada. Í tilkynningu kemur fram að Betware hafi á undanförnum misserum verið að fjölga starfsmönnum og að samningurinn við Circa, ásamt fleiri samningnum sem eru í vinnslu, muni styðja frekar við uppbyggingu á starfsemi fyrirtækisins innanlands.

Helstu viðskiptavinir Betware eru Íslenskar getraunir, Íslensk getspá, Danske Spil (danska ríkislóttóið), British Columbia Lottery Corporation (lottó í Bresku Kólombíu í Kanada) og Sistemas Tecnicos de Loterias del Estado (spænska ríkislottóið).

Um 98% tekna Betware koma erlendis frá. Fyrirtækið er skuldlaust og var það rekið með tæplega 200 milljóna króna hagnaði árið 2009, samkvæmt ársreikningi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×