Viðskipti innlent

Þurfa að endurreikna þúsundir lánasamninga

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Birna Einarsdóttir er forstjóri Íslandsbanka.
Birna Einarsdóttir er forstjóri Íslandsbanka. Mynd/ GVA.
Gert er ráð fyrir að fjármálastofnanir þurfi að endurútreikna þúsundir fjármögnunarsamninga vegna Kraftvélaleigudómsins sem féll í Hæstarétti í dag. Heildarverðmæti samninganna skiptir milljörðum. Í málinu var samningur sem Kraftvélaleigan gerði við Glitni árið 2007 til að fjármagna kaup á stórri vinnuvél dæmdur ólöglegur.

Vegna dómsins mun Íslandsbanki þurfa að endurreikna 5000 samninga sem voru gerðir við 1100 lögaðila. Vísir hefur ekki upplýsingar um það hver heildarupphæð samninganna er. Bankinn sendi frá sér yfirlýsingu í dag þar sem hann sagði að varúðarreikningur bankans standi undir þeirri niðurstöðu sem í dag var staðfest í Hæstarétti. Lykilstarfsmenn bankans funduðu í kvöld til þess að fara yfir dóminn og munu væntanlega funda frekar á morgun.

Hjá Landsbanka Íslands munu menn þurfa að endurreikna 2500 samninga, segir Kristján Kristjánsson, upplýsingafulltrúi bankans, við Vísi. „En þetta mun hafa óveruleg fjárhagsleg áhrif," segir Kristján. Hann segir að samningarnir hafi á sínum tíma ekki verið gerðir við Landsbankann, heldur við SP fjármögnun. SP fjármögnun var þá sjálfstætt fyrirtæki en er nú orðið svið innan Landsbankans.

Ekki hafa fengist nákvæmar upplýsingar um það hve margir samningar af þessu tagi höfðu verið gerðir hjá Kaupþingi, sem nú heitir Arion banki. Þá eru áhrif dómsins á fjármögnunarfyrirtækið Lýsingu heldur ekki kunn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×