Viðskipti innlent

Milljarða virðisaukaskattgreiðslur til skoðunar

Jónas Margeir Ingólfsson skrifar
Milljarða virðisaukaskattgreiðslur eru nú til skoðunar eftir dóm Hæstaréttar í máli Kraftvélaleigunnar. Ríkisskattstjóri segir málið flókið og dóm Hæstaréttar eiga eftir að hafa margbrotnar afleiðingar

Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu í máli kraftvélaleigunnar að svokallaðir fjármögnunarleigusamningar Íslandsbanka væru í raun lánssamningar. Það er, sú fjármögnunarleið sem álitin var leiga reyndist í raun, í skilningi réttarins, vera lán.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur það verið álitamál hvort rétt hafi verið staðið að sköttun þessara samninga innan einhverra fjármögnunarfyrirtækja, vegna þess að fjármögnunarleigan var virðisaukaskattskyld.

Til dæmis ef vörubílstjóri fékk eina milljón króna með fjármögnunarleigusamningi við Íslandsbanka innheimti bankinn um það bil tvö hundruð og fimmtíu þúsund í virðisaukaskatt sem bankinn greiddi svo ríkinu. Og flest fyrirtæki sóttu svo um endurgreiðslu á skattinum frá ríkinu.

Nú er hins vegar spurning hvernig tekið verður á þessu því niðurstaða Hæstaréttar leiddi í ljós að fjármögnunarleigan sem var virðisaukaskattskyld var í raun ekki fjármögnunarleiga.

Óvíst er hvort að skattgreiðsluferlinu verði snúið við og skatturinn endurgreiddur eða hvort gripið verði til einhverra annarra ráða. Skattgreiðslurnar hlaupa á milljörðum króna en alls voru fjórtán þúsund erlendir fjármögnunarleigusamningar gerðir.

Fjármögnunarfyrirtækin hafa hins vegar ekki komist að endanlegri niðurstöðu um hvernig fara eigi með samningana eftir dóm Hæstaréttar.

Það sem hins vegar gæti flækt málið enn frekar er að mörg þessara fyrirtækja eru nú gjaldþrota.

Í samtali við fréttastofu segist Skúli Eggert Þórðarson, ríkisskattstjóri, hafa fundað um málið áður en Hæstiréttur kvað upp dóm sinn. Málið sé nú í vandlegri skoðun. Dómurinn hafi hins vegar margbrotnar og flóknar afleiðingar fyrir fjölmarga aðila. Það muni taka nokkrar vikur að fara yfir málið og reyna að finna á því lausn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×