Handbolti

Umfjöllun og viðtöl: Ísland - Úkraína 20-21

Stefán Árni Pálsson í Laugardalshöllinni skrifar
Rakel Dögg Bragadóttir.
Rakel Dögg Bragadóttir. Mynd/Anton
Íslenska landsliðið í handknattleik tapaði fyrir því úkraínska 21-20 í undakeppni Evrópumótsins sem fram fer árið 2012. Sóknarleikur liðsins varð þeim að falli í síðari hálfleik en þær leiddu leikinn 11-8 í hálfleik. Virkilega slæm úrslit en landsliðið hefur nú tapað báðum leikjum liðsins í undankeppninni.

Leikurinn byrjaði nokkuð rólega, en þær íslensku virtust vera ákveðnari á upphafsmínútunum. Guðný Jenný Ásmundsdóttir byrjaði leikinn frábærlega og var með þær úkraínsku í vasanum. Staðan var 6-2 fyrir Íslandi þegar fyrri hálfleikurinn var hálfnaður.

Íslenska liðið hafði öll völd á leiknum næstu mínútur, en þegar nokkrar mínútur voru eftir af hálfleiknum kom fínn kafli hjá þeim úkraínsku og þær skoruðu þrjú mörk í röð. Staðan var þá orðin 8-6 og Ágúst Jóhannsson, þjálfari Íslands, tók leikhlé.

Staðan í hálfleik var 11-8 fyrir heimastúlkur í hálfleik, en fyrri hálfleikurinn bauð ekki uppá gríðarlega fallegan handbolta, en fín forysta hjá þeim íslensku.

Gestirnir byrjuðu betur í síðari hálfleik og höfðu minnkað muninn í eitt mark, 12-11, þegar fjórar mínútur voru liðnar af hálfleiknum. Hægt og rólega náðu gestirnir að komast yfir í leiknum og þær íslensku voru léku vægast sagt illa á tímabili í síðari hálfleik. Þegar tólf mínútur voru eftir var staðan orðin 17-16 fyrir Úkraínu og Ágúst tók þá leikhlé.

Úkraína komst stuttu síðar tveim mörkum yfir, en þá kom ágætur kafli hjá íslenska liðinu og þær jöfnuðu metinn 19-19 þegar átta mínútur voru eftir af leiknum.

Þegar tíu sekúndur voru eftir að leiknum fékk Ísland tækifæri til að jafna leikinn en markvörður þeirra varði skot frá Rakel Bragadóttur. Niðurstaðan því slæmt tap hjá stelpunum.



Ágúst: Sóknarleikurinn varð okkur að falli

„Þetta eru mikil vonbrigði og að mínu mati voru við betri í leiknum," sagði Ágúst Jóhannsson, þjálfari íslenska landsliðsins í handknattleik, eftir tapið gegn Úkraínu.

„Sóknarleikurinn varð okkur að falli í dag og við förum oft mjög illa með fín færi".

„Einnig voru við virkilega slappar þegar við erum einum fleiri. Síðan fara stelpurnar illa með ákjósanlega leikstöðu þegar liðið nær yfirtölu og á aðeins eftir að stimpla sig í gegn".

Hægt er að sjá myndskeið af viðtalinu við Ágúst með því að smella hér.



Hrafnhildur: Ef ég hefði drullast til að skora úr vítinu

„Þetta var skelfilegur leikur hjá okkur og algjör skandall," sagði Hrafnhildur Skúladóttir, leikmaður íslenska landsliðsins, eftir leikinn.

„Það er ömurlegt að skora ekki nema 20 mörk í dag og allt of margir leikmenn sem ná sér ekki á strik, þar á meðal ég sjálf".

„Þær mættu okkur mun framan í síðari hálfleiknum og við réðum ekki nægilega vel við það".

„Ef ég hefði drullast til að skora úr vítinu í lokin þá hefðum við sennilega farið heim með eitt stig".

Hægt er að sjá myndbandsviðtal við Hrafnhildi hér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×