Viðskipti innlent

Aukning ferðamanna skilar ekki samsvarandi auknum tekjum

Sú mikla fjölgun erlendra ferðamanna til landsins, sem orðið hefur á síðustu árum, hefur ekki skilað sér í samsvarandi auknum tekjum.

Þetta kemur fram í athugun greiningar Arion banka og fjallað er um í Markaðspunktum hennar. Niðurstaðan er að síðustu ár hafa tekjur á hvern ferðamann minnkað umtalsvert í evrum talið.

Sú mikla fjölgun sem varð meðal erlendra ferðamanna á síðustu árum hafi að mestu stafað af auknu streymi „sparsamari ferðamanna" sem hafa nýtt sér hagstætt gengi krónunnar.

Þetta sést einna helst þegar tölur yfir eyðslu á hvern ferðamann í evrum talið eru skoðaðar. Frá árinu 2002 hefur fjöldi ferðamanna aukist um 67% en á sama tíma hefur neysla hvers og eins ferðamanns, mæld í evrum, dregist saman um 44%.

Annað atriði sem styður þetta er sá viðsnúningur sem orðið hefur í eftirspurn eftir gistingu. Þannig varð um 20% aukning í eftirspurn eftir annarri gistingu en á hótelum árið 2009 á sama tíma og lítil breyting varð á eftirspurn vegna hótelgistinga.

Greiningin telur að mikilvægt sé að laða hingað til lands ferðamenn sem eyða meiru en meðalferðamaðurinn. Slíkt sé án ef hagkvæmasta leiðin til að auka tekjur af ferðamönnum án þess að ferðamannastraumurinn til landsins gangi of nærri náttúrunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×