Viðskipti innlent

Nýtt íbúðahótel tekur til starfa á Hverfisgötu

Nýtt íbúðahótel, Reykjavík Residence Hotel, hefur tekið til starfa að Hverfisgötu 45 í Reykjavík, húsi sem byggt var árið 1914 og hefur gegnt ýmsum  hlutverkum í gegnum tíðina.

Í tilkynningu segir að hótelið samanstandi af tíu stúdíóíbúðum, tveimur tveggja herbergja íbúðum og tveimur þriggja herbergja íbúðum. Hótelið hefur verið opnað í áföngum, fyrstu íbúðirnar í mars sl. og þær síðustu í byrjun október. Hótelið hefur nú þegar fengið lofsamlega dóma gesta, m.a. á hótelbókunarvefsíðum.

Fyrsti eigandi Hverfisgötu 45 var Matthías Einarsson læknir, en ekki er vitað hver var hönnuður hússins. Seinna var þar sendiráð Noregs fram á áttunda áratug síðustu aldar og einnig var Söngskólinn í Reykjavík þar til húsa í nærri aldarfjórðung.

Síðastliðin tíu ár hefur verið rekið gistiheimili í húsinu, sem nú hefur verið breytt í íbúðahótel. Hönnun endurbótanna var í höndum Teiknistofu Erlings G. Pedersen og iðnmeistari var Þórhallur Borgþórsson. Verkefnisstjóri var Þórður B. Bogason. Eigandi hótelsins er Íslensk fjárfesting og hótelstjóri er Ilhan Erkek.

Allar endurbætur á húsinu voru unnar í fullu samráði við Húsafriðunarnefnd. Í endurbótunum var leitast við eftir fremsta megni að færa húsið í því sem næst upprunalega mynd að utanverðu, en á þeirri hlið hússins sem snýr að Hverfisgötu er götumyndin friðuð.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×