Viðskipti innlent

Héraðsdómur felldi ákvörðun FME úr gildi

Margeir Pétursson var áður helsti eigandi MP banka, forvera EA fjárfestingarfélags hf.
Margeir Pétursson var áður helsti eigandi MP banka, forvera EA fjárfestingarfélags hf.
Héraðsdómur Reykjavíkur felldi í dag úr gildi ákvörðun Fjármálaeftirlitsins (FME) um að EA fjárfestingarfélag hf. skyldi greiða fimmtán milljón króna sekt fyrir að brjóta lög um áhættuskuldbindingu. EA fjárfestingarfélag var áður MP banki en breytti um nafn þegar reksturinn var seldur út úr þeim banka.

Fjármálaeftirlitið komst að þeirri niðurstöðu að ein fjárhættuskuldbinding bankans næmi 126 prósentum af eigin fé, eða fimmfalt hærri en 25% hámark segir til um. Fjármálaeftirlitið taldi tíu félög eigenda vera fjárhagslega tengd og ættu fjárhættuskuldbindingarnar því að teljast sem ein. Við þessa athugun byggði stofnunin einnig á mati á tengslum þeirra Margeirs Péturssonar, Sigfúsar B. Ingimundarsonar og Sigurðar Gísla Pálmasonar sem sátu allir í stjórn MP banka og Jóns Pálmasonar sem sat í varastjórn. Að mati FME voru tengslin þess eðlis að þeir væru með óbein yfirráð yfir félögunum og hefðu myndað tengsl sem taka ætti sem sameiginlega áhættu í rekstri bankans.

Héraðsdómur komst að annarri niðurstöðu og taldi ekki sýnt fram tengslin væru með þeim hætti sem haldið var fram í ákvörðun Fjármálaeftirlitsins. Hún var því felld úr gildi og verður Fjármálaeftirlitið að greiða lögfræðikostnað EA fjárfestingarfélags upp á tvær milljónir króna, samkvæmt dómi héraðsdóms frá því í morgun.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×