Viðskipti innlent

Forstjóri FME: Niðurstaða héraðsdóms kom á óvart

Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
Gunnar Andersen, forstjóri Fjármálaeftirlitsins.
„Þessi niðurstaða kom á óvart," segir Gunnar Andersen, forstjóri FME, um dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í morgun, þess efnis að ákvörðun FME er varðar EA fjárfestingarfélag hf., forvera MP banka, var dæmd ógild og sekt í tengslum við hana felld niður.

FME komst að þeirri niðurstöðu að ein fjárhættuskuldbinding bankans næmi 126 prósentum af eigin fé, eða fimmfalt hærri en 25% hámark segir til um. FME taldi tíu félög eigenda vera fjárhagslega tengd og ættu fjárhættuskuldbindingarnar því að teljast sem ein. Við þessa athugun byggði FME einnig á mati á tengslum þeirra Margeirs Péturssonar, Sigfúsar B. Ingimundarsonar og Sigurðar Gísla Pálmasonar sem sátu allir í stjórn MP banka og Jóns Pálmasonar sem sat í varastjórn. Að mati FME voru tengslin þess eðlis að þeir væru með óbein yfirráð yfir félögunum og hefðu myndað tengsl sem taka ætti sem sameiginlega áhættu í rekstri bankans.

Héraðsdómur komst að annarri niðurstöðu í morgun og taldi ekki sýnt fram á að tengslin væru með þeim hætti sem haldið var fram í ákvörðun FME. Hún var því felld úr gildi og verður FME að greiða lögfræðikostnað EA fjárfestingarfélags upp á tvær milljónir króna, samkvæmt dómi héraðsdóms frá því í morgun.

Gunnar segist ekki geta tjáð sig frekar um málið að svo stöddu. FME eigi eftir að fara í gegnum dóminn og meta endanlega hvort honum verði áfrýjað, og einnig hvort staðfesting hans í Hæstarétti kunni að hafa áhrif á hvernig fjallað er um mál tengdra aðila hjá stofnuninni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×