Viðskipti innlent

Funduðu með ríkisskattstjóra vegna gengisdóms

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Mörg atvinnutæki voru fjármögnuð með fjármögnunarleigusamningum.
Mörg atvinnutæki voru fjármögnuð með fjármögnunarleigusamningum. mynd/ getty
Fulltrúar frá Samtökum fjármálafyrirtækja funduðu með Skúla Magnúsi Eggertssyni ríkisskattstjóra vegna gengisdómsins sem féll í síðustu viku. Hæstiréttur komst að þeirri niðurstöðu að fjármögnunarleigusamningur sem fyrirtækið Kraftvélaleigan gerði við Glitni árið 2007 væri í raun ólöglegt gengistryggt lán.

Óljóst er hvernig skattayfirvöld munu bregðast við þessu máli því fjármálafyrirtækin hafa greitt virðisaukaskatt af samningunum, eins og um leigusamninga hafi verið að ræða. Þessar greiðslur hefðu fjármálafyrirtækin ekki innt af hendi ef um lán hefði verið að ræða. Fyrirtækin eiga því mögulega endurgreiðslukröfu á ríkissjóð vegna dómsins í síðustu viku.

Guðjón Rúnarsson, framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja, vildi lítið tjá sig um fundinn að honum loknum. „Það var gott andrúmsloft og menn eru að reyna að fara yfir þetta og skoða þetta. Menn eru að reyna að finna lausnir á þessum praktísku vinklum sem upp koma í þessu tilfelli," segir Guðjón.

Guðjón, ítrekar það sem hann hefur áður sagt, að það liggi fyrir að fordæmisgildi dómsins sé takmarkað. „Það nær allavega til þessa skilmála hjá þessu fyrirtæki sem málið sneri að , ergó fjármögnun, en ekki víst að allir skilmálar falli undir þetta,“ segir Guðjón. Þá hafi annað fyrirtæki verið búið að gefa upp að það telji sína skilmála ekki falla undir þetta. Mál þess sé í farvegi í réttarkerfinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×