Viðskipti innlent

ASÍ spáir afar hægum hagvexti

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það er gert ráð fyrir atvinnuleysi áfram.
Það er gert ráð fyrir atvinnuleysi áfram. mynd/ vilhelm.
ASÍ gerir ráð fyrir að verstu afleiðingar hrunsins séu nú að baki og framundan sé hægur bati í efnahagslífinu. Þetta kemur fram í nýrri hagspá sem birt var í dag. ASÍ segir það hins vegar vera áhyggjuefni að efnahagsbatinn framundan sé svo veikur að við blasir doði í hagkerfinu þar sem okkur tekst hvorki að endurheimta fyrri lífskjör né vinna bug á atvinnuleysinu á komandi árum.

ASÍ spáir því að landsframleiðsla aukist hægt á næstu árum, hagvöxtur verði 2,4% á yfirstandandi ári, um 1% á næsta ári, 2,7% á árinu 2013 og um 1,5% á árinu 2014. Hagur heimilanna vænkist heldur á næstu misserum þótt víða verði áfram þröngt í búi og atvinnuleysi áfram hátt. Samkvæmt spánni dregur úr atvinnuleysi á tímabilinu en það verður enn um 5% árið 2014.

ASÍ segir að útlit sé fyrir litlar fjárfestingar í hagkerfinu næstu árin. Mikil óvissa ríki um framkvæmdir við álver í Helguvík og innanríkisráðherra hafi slegið út af borðinu allar áætlanir um að gera átak í vegamálum á Suðvesturlandi með sérstakri fjármögnun. Það er því ekki gert ráð fyrir þessum framkvæmdum í spánni. Þá valda erfiðleikar á erlendum fjármálamörkuðum aukinni óvissu varðandi fjárfestingar.

ASÍ segir að eina leiðin til að bæta lífskjör og draga úr atvinnuleysi sé að auka verðmætasköpun þjóðarbúsins. Aðgerðir til að örva hagvöxt og skapa störf verði því miða að því að auka arðbæra fjárfestingu. Takist að nýta þau tækifæri sem felist t.d í framkvæmdum í Helguvík og orku- og iðjuverum á Norðurlandi yki það hagvöxt áranna 2012-2014 um 3 prósentustig sem sé ekki lítill ávinningur. Árleg verðmætasköpun yrði þá um 55 milljörðum meiri árið 2014 en ella auk þess sem það hefði veruleg jákvæð áhrifa á atvinnustigið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×