Viðskipti innlent

Skortur á litlum og ódýrum íbúðum

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Það er skortur á litlum og ódýrum íbúðum, segir Hagdeild ASÍ.
Það er skortur á litlum og ódýrum íbúðum, segir Hagdeild ASÍ. mynd/ vilhelm.
Hagdeild ASÍ segir blikur á lofti um að skortur sé á minni, ódýrari íbúðum sem lítið var byggt af á uppgangsárunum fyrir hrun. Það megi því búast við auknum íbúðafjárfestingum allt til ársins 2014.

Hagdeildin segir að íbúðafjárfestingar hafi dregist saman um 70% á síðustu þremur árum og séu nú í sögulegu lágmarki í kjölfar mikilla offjárfestinga á árunum 2004-2007. Fjárfestingar í íbúðarhúsnæði sem hlutfall af landsframleiðslu séu nú 2,3% og hafi það hlutfall aldrei mælst lægra. Þröng staða heimilanna og aukin krafa um eigið fé hafi takmarkað eftirspurn eftir nýju húsnæði en vísbendingar séu um að umsvif á fasteignamarkaði séu heldur að aukast.

„Enn er nokkuð til af tómu íbúðarhúsnæði en vísbendingar eru um að skortur sé á ákveðnum tegundum húsnæðis, einkum minni, ódýrari íbúðum sem lítið var byggt af á uppgangsárunum. Fasteignaverð lækkaði mikið í kjölfar efnahagshrunsins og nam lækkunin um þriðjung að raunvirði frá upphafi árs 2008 fram á síðasta fjórðung ársins 2010. Á yfirstandandi ári hefur verðið heldur farið hækkandi á ný,“ segir Hagdeildin.

Hagdeildin gerir ráð fyrir að á þessu ári og á því næsta aukist íbúðafjárfestingar um 8% hvort ár um sig. Árið 2013 vaxi þær um 12% og ríflega fimmtungsaukning verði á árinu 2014.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×