Viðskipti innlent

Skúli Mogensen hefur flugrekstur til og frá Íslandi

Skúli Mogensen var áður hjá MP banka.
Skúli Mogensen var áður hjá MP banka.
Innan skamms munu Íslendingar fá nýjan valkost í alþjóðaflugi. Títan, fjárfestingarfélag sem er að fullu í eigu Skúla Mogensen fjárfestis, hefur um hríð skoðað kosti þess að hefja flugrekstur til og frá Íslandi, samkvæmt tilkynningu frá félaginu.

Þar segir að sú vinna sé nú á lokastigi. Verið er að klára samninga við stóran kanadískan flugrekenda um langtímaleigu á nokkrum Boeing-þotum sem mynda munu flugflota félagsins í upphafi. Félagið hyggst hefja flug til Evrópu í vor. Það mun hafa höfuðstöðvar sínar á Íslandi og vera að fullu í íslenskri eigu.

Frekari upplýsingar um nafn hins nýja flugfélags, til hvaða áfangastaða verður flogið og hvenær sala flugmiða hefst, verða veittar á næstunni. Félag utan um flugreksturinn hefur verið að fullu fjármagnað. Það verður í meirihlutaeigu Títan, en aðrir hluthafar eru Baldur Baldursson og Matthías Imsland, fyrrverandi forstjóri Iceland Express.

Baldur er framkvæmdastjóri félagsins sem unnið hefur að verkefninu og heitir Iceland jet ehf til bráðabirgða. Stjórn félagsins skipa Skúli Mogensen eigandi Títan, Baldur Baldursson framkvæmdastjóri, Davíð Másson forstjóri og Björn Ingi Knútsson fyrrv. forstjóri Keflavíkurflugvallar og fulltrúi Norðurlanda í IATA - alþjóðasamtökum flugrekenda. Skúli Mogensen er jafnframt stjórnarformaður hins nýja félags.

„Þetta er afar spennandi verkefni. Við sjáum margvísleg tækifæri í íslenskum ferðaiðnaði og ég hlakka til að taka þátt í að efla hann enn frekar á komandi árum," segir Skúli í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×