Viðskipti innlent

Illa gengur að fjármagna Sparibankann

Ingólfur Ingólfsson, fjármálaráðgjafi.
Ingólfur Ingólfsson, fjármálaráðgjafi.
Erfiðlega gengur að ljúka fjármögnun Sparibankans. Hefur bankinn sagt upp leigusamningi á Iðuhúsinu við Lækjargötu sem hann hefur haft á leigu frá 1. september.

Erfiðlega gengur að ljúka fjármögnun Sparibankans. Hefur bankinn sagt upp leigusamningi á Iðuhúsinu við Lækjargötu sem hann hefur haft á leigu frá 1. september. Enn er þó stefnt að því að bankinn hefji rekstur á næsta ári.

„Fjármögnun bankans hefur tekið lengri tíma en við höfðum reiknað með. Það er orðið hálft ár síðan við festum Iðuhúsið en við þorðum ekki öðru en að gefa það eftir núna, þar sem við sjáum ekki alveg fyrir hvenær fjármögnun lýkur," segir Ingólfur H. Ingólfsson fjármálaráðgjafi, sem er stjórnarformaður bankans.

Sparibankinn byggir á þýskri fyrirmynd, en samkvæmt vefsíðu bankans mun hann fylgja samfélagslega ábyrgri útlánastefnu og hvetja viðskiptavini sína til sparnaðar og eignauppbyggingar.

Ingólfur segir að áætlanir hafi gert ráð fyrir að bankinn yrði opnaður á fyrsta ársfjórðungi næsta árs en nú væri sennilegra að opnun frestaðist eitthvað. Þá segir hann að verið sé að skoða alla kosti til að klára fjármögnun bankans, þar á meðal að selja verkefnið. „Aðalatriðið er að láta þetta verða að veruleika, ég þarf ekki endilega að eiga þetta," segir Ingólfur, en félag í hans eigu er stærsti hluthafi bankans með alls 48,6 prósent hlut af 223 milljóna króna hlutafé bankans.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×