Viðskipti innlent

Raunávöxtun lífeyrissjóðanna batnar verulega milli ára

Hrein raunávöxtun lífeyrissjóðanna þ.e. ávöxtun umfram verðbólgu batnaði verulega milli áranna 2009 og 2010. Í fyrra var raunávöxtunin var 2,65% samanborið við 0,34% á árinu 2009. Meðaltal hreinnar raunávöxtunar sl. 5 ár var neikvætt um 1,6% en meðaltal sl. 10 ára er hinsvegar 2,2% í plús.

Þetta kemur fram á vefsíðu Fjármálaeftirlitsins. Þar segir að raunávöxtun sjóðanna fari batnandi þrátt fyrir að margir sjóðir glími enn við eftirköst bankahrunsins.

Heildareignir lífeyrissjóðanna námu tæplega 1.910 milljörðum króna í árslok 2010 samanborið við um 1.775 milljarða í árslok 2009. Nemur aukningin um 7,6% sem samsvarar jákvæðri raunaukningu upp á 5% miðað við vísitölu neysluverðs.

Iðgjöld lífeyrissjóðanna hækkuðu um tæp 3% á milli ára eða úr 107 milljörðum króna í árslok 2009 í rúmlega 110 milljarða króna í árslok 2010. Gjaldfærður lífeyrir ásamt útgreiðslu séreignarsparnaðar var rúmlega 71 milljarður króna árið 2010 en var 76 milljarðar króna árið 2009. Útgreiðslur vegna tímabundins bráðabirgðaákvæðis námu tæpum 15 milljörðum króna árið 2010 samanborið við tæpa 22 milljarða króna árið áður.

Séreignarsparnaður í vörslu lífeyrissjóða og annarra vörsluaðila á árinu 2010 jókst um 9% og nam 314 milljörðum króna samanborið við 288 milljarða í árslok 2009. Séreignarsparnaður í heild nam um 15,5% af heildareignum lífeyriskerfisins í árslok 2010. Iðgjöld til séreignarlífeyrissparnaðar hækkuðu á milli ára og fóru úr tæpum 27 milljörðum króna í 29 milljarða króna á árinu 2010.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×