Viðskipti innlent

Gengi krónunnar hefur styrkst stöðugt frá því í sumar

Gengi krónunnar hefur styrkst nær stöðugt frá því um miðjan júlí s.l. Í augnablikinu er gengisvísitalan rétt undir 213 stigum en um miðjan júlí stóð hún í rúmum 220 stigum. Þetta er styrking á genginu upp á um 3,5% á þessu tímabili.

Fjallað er um málið í Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa. Þar segir að gengisstyrkingin hafi gengið aðeins til baka í síðustu viku en þá lækkaði gengið um 0,43% og vísitalan endaði í tæpum 213,7 stigum. Sú lækkun hefur hinsvegar gengið til baka í þessari viku og gott betur.

Hinsvegar hefur skuldatryggingaálag á skuldir ríkissjóðs Íslands hefur hækkað verulega undanfarna mánuði og stendur í um 300 punktum.  Lægsta gildi ársins var í júní þegar álagið stóð í um 200 punktum.

Það sem veldur því eru að mestu eða öllu leyti alþjóðleg þróun samfara vaxandi ótta tengt skuldastöðu ýmissa ríkja, að því er segir í Markaðsfréttum Íslenskra verðbréfa.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×